Tjörvi Týr Gíslason ((Egill Bjarni Friðjónsson)
Línumaðurinn, Tjörvi Týr Gíslason hefur gengið í raðir þýska liðsins, Oppenweiler. Þetta staðfesti hann í samtali við Handkastið en félagið staðfesti komu hans til félagsins í morgun. Oppenweiler eru nýliðar í þýsku B-deildinni en liðið lék í þýsku C-deildinni á síðustu leiktíð. Tjörvi Týr sem er uppalinn í Val hafði leikið með Val allan sinn feril áður en hann gekk til liðs við Bergischer á síðustu leiktíð og lék með liðinu í þýsku B-deildinni. Liðið tryggði sér sæti í þýsku úrvalsdeildinni en tækifæri Tjörva fór fækkandi með tímanum á síðustu leiktíð og því ákvað hann að leita annað í sumar. Handkastið greindi frá því að hans uppeldisfélag, Valur hefði reynt mikið að fá hann heim á Hlíðarenda en metnaður hans lá í því að vera áfram erlendis. Nú er það orðið ljóst að hann leikur áfram erlendis. ,,Tjörvi er baráttumaður með stórt hjarta. Hann mun styrkja okkur, sérstaklega í vörninni. Sú staðreynd að hann þekkir deildina er mikill kostur," sagði Johcen Bartels íþróttastjóri félagsins. Oppenweiler er staðsett í klukkutíma fjarlægð frá Göppingen þar sem eldri bróðir Tjörva, Ýmir Örn Gíslason leikur. Þjálfari liðsins er Stephan Just en hann hefur áður þjálfað Aue, Hamm-Westfalen, Altenhagen-Heepen og varalið Magdeburg.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.