Carlos Martin Santos ((Sigurður Ástgeirsson)
Selfyssingar eru mættir aftur í Olís deild karla eftir eins árs veru í Grill66 deildinni en þeir unnu Gróttu í umspilinu 3-1. Við höfðum samband við þjálfara liðsins, Carlos Martin Santos sem er að hefja sitt annað tímabil sem aðalþjálfara liðsins. „Við viljum fá inn einn markmann en það er eina staðan sem við erum að leita eftir styrkingu," sagði Carlos þegar hann var spurður út í leikmannahópinn og hvort það vantaði eitthvað fyrir tímabilið. En hver er annars staðan á leikmannahópnum núna þegar minna en sjö vikur eru í mót og hafið þið markvisst verið að reyna fá mikið af leikmönnum í sumar? „Við hófum æfingar fyrir tæplega tveimur vikum síðan og það munu margir ungir leikmenn æfa með liðinu og einhverjir af þeim munu fá tækifæri í leikjum líka en við verðum að mestu leyti skipaðir heimamönnum." „Það var ætlunin að finna markmann en því miður hefur það gengið illa, við höfum nú þegar fengið nokkrar neitanir bæði frá íslenskum markmönnum og erlendum en því miður er erfitt að finna markmann, að auki höfum við verið að leita af 2-3 örvhentum leikmönnum." Eruð þið búnir að setja upp einhver markmið fyrir tímabilið eða er stefnan sett á að taka bara einn leik í einu? „Markmiðið er skýrt og einfalt, það er að halda sæti sínu í deildinni hvort sem það sé í gegnum umspil eða að ná tíunda sætinu og forðast umspilið," sagði Carlos Martin þjálfari Selfoss.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.