Breyting á U19 hópnum fyrir HM í Egyptalandi
(Raggi Óla)

Stefán Magni Hjartarson ((Raggi Óla)

Heimir Ríkharðsson og Maksim Akbachev þjálfarar U19 ára landsliðs karla hafa gert eina breytingu á landsliðshópnum fyrir HM sem fram fer í Egyptalandi frá Opna Norðurlandamótinu sem fram fór í Gautaborg í upphafi júlí. Þar tapaði íslenska landsliðið í úrslitum gegn Spánverjum.

Örvhenti hornamaðurinn, Stefán Magni Hjartarson er kominn aftur inn í hópinn eftir að hafa glímt við afleiðingar höfuðhöggs eins og greint var frá hér á Handkastinu fyrr í sumar. Kemur Stefán Magni inn í hópinn fyrir Egil Jónsson hægri hornamann úr Haukum. Heimir Ríkharðsson þjálfari liðsins staðfesti þetta í samtali við Handkastið.

Stefán Magni fékk þungt höfuðhögg í næst síðustu viðureign Aftureldingar og Vals í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar í vor. Stefán Magni fékk heilahristing við höggið og var lengi að jafna sig. Nú hefur hann hinsvegar jafnað sig og hefur æft með liðinu síðustu daga og hefur þjálfarateymið tekið ákvörðun um að Stefán Magni fari með liðinu til Egyptalands.

Heimsmeistaramót karla U19 ára fer fram í Kairó dagana 6. - 17. ágúst en 32 landslið taka þátt í mótinu. Segja mætti að Íslandi hafi dottið í lukkupottinn þegar dregið var í riðla en liðið er í riðli með Brasilíu, Gíneu og Sádí Arabíu. Tvö efstu liðin í riðlinum fara áfram í milliriðil. Ísland var í efsta styrkleikaflokki þegar dregið var.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top