Verður sterkasta lið sem ég hef spilað fyrir
(AEK)

Grétar Ari Guðjónsson ((AEK)

Markvörðurinn, Grétar Ari Guðjónsson gekk í raðir AEK í Grikklandi frá franska félaginu US Ivry fyrr í þessum mánuði. Eftir fimm ára veru í Frakklandi með þremur félögum er komið að nýjum kafla á ferli Grétars sem er uppalinn í Haukum og lék með Haukum til ársins 2020.

,,Það eru alltaf blendnar tilfinningar þegar maður gengur til liðs við nýtt félag. Ég er fullur af eldmóð og tilbúinn fyrir áskoranirnar og tækifærin sem framundan eru í Grikklandi. Ég hlakka til að hitta nýja liðið mitt, tengjast aðdáendunum. Hvað varðar markmiðin er það frekar einfalt: Ég vill vinna í hvert skipti sem ég stíg inn á völlinn," sagði Grétar Ari í samtali við heimasíðu AEK þegar hann var tilkynntur sem nýr leikmaður liðsins. Grétar Ari gerði tveggja ára samning við AEK en með klásúlu næsta sumar að geta rift samningnum.

En hvað kemur til að hann yfirgefi nú Frakkland og gangi í raðir AEK? Handkastið sló á þráðinn til Grétars og spurði hann út í vistaskiptin.

,,Þetta byrjaði nú einfaldlega þannig að ég fékk kanski ekki alveg sama hlutverk og ég bjóst við og var talað um í US Ivry. Síðan voru aðrir hlutir sem voru óæskilegir hjá félaginu," sagði Grétar Ari sem segist ekkert vilja fara neitt djúpt í það en bendir á að mikil leikmannavelta er hjá félaginu á hverju ári.

Aðal áskorunin að vinna gríska meistaratitilinn

,,Síðan þegar það varð hægt og rólega ljóst að við myndum líklega falla niður um deild þá talaði ég við félagið vegna þess að það er ekkert vit í því fyrir þá að halda mér í þessu hlutverki sem ég var í, á samningnum sem ég var á og í næstefstu deild. Þá reyndi ég að finna eitthvað áhugavert og skemmtilegt verkefni en það voru svona flest lið búin með sín mál," sagði Grétar sem segir að AEK hafi síðan komið upp í myndina og honum hafi þótt það áhugavert.

,,AEK liðið er þokkalega sterkt, örugglega sterkasta lið sem ég hef spilað fyrir þó svo að deildin í Grikklandi sé vissulega ekki sú sterkasta. Auðvitað var ég líka með Evrópubikarinn í huganum en svo fór það eins og það fór," sagði Grétar og á þá við að AEK hefur verið sett í tveggja ára keppnisbann frá Evrópukeppnum á vegum EHF vegna þess að félagið neitað að leika síðari úrslitaleikinn við HC Alkaloid í Evrópubikarkeppni karla í handknattleik sem fram átti að fara 25. maí.

,,Liðinu hefur mistekist tvö ár í röð núna að tryggja sér gríska meistaratitilinn þannig að það er aðal áskorunin að klára það. Ég er búinn að vera núna síðustu þrjú ár í 50% hlutverki og í liðum sem hafa verið að reyna halda sér uppi mikið. Mig hlakkar til að fara í lið sem á að vinna alla leiki sem það spilar og að reyna vinna titla þó þetta séu ekki stærstu titlarnir í Evrópu. Það er alltaf skemmtilegra og ég held mér eigi eftir að ganga betur í svoleiðis umhverfi," sagði Grétar Ari sem verður einn þriggja markvarða hjá AEK á næstu leiktíð. Fyrir er Ísrael-inn Dan Tepper og Frakkinn, Yann Genty sem verður 44 ára á þessu ári.

,,AEK reyndu að fá mig strax í fyrra í febrúar til þess að létta álagið á Genty en ég fékk ekki að fara þá. Ég býst við því að spila megnið af tímanum en það er svosem ekki alveg öruggt. Þegar þeir töluðu við mig og umboðsmanninn minn töluðu þeir um að Genty væri mögulega að fara yfir í einhversskonar markmannsþjálfara stöðu. Ég held hann eigi nú eftir að spila allavega eitthvað þetta ár líka en ég reikna með því að það verði ekki mikið. Það verður bara að koma í ljós," sagði Grétar Ari að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top