Birkir Benediktsson ((FH handbolti)
Deildarmeistarar FH hafa tilkynnt komu Birkis Benediktssonar til félagsins en Handkastið greindi fyrst miðla frá því í gærkvöldi að Birkir væri búinn að semja við Fimleikafélagið. Birkir Benediktsson gengur í raðir FH frá japanska félaginu Wakunaga en áður hafði Birkir leikið allan sinn feril með Aftureldingu. Gerir Birkir Benediktsson eins árs samning við FH. ,,Við FH-ingar erum virkilega ánægðir með að fá Birki í okkar raðir. Hann er frábær leikmaður á báðum endum vallarins og erum við fullvissir um að hann smellpassi inn í okkar umhverfi. Birkir kemur með gríðarlega reynslu inn í leikmannahópinn og hlökkum við til að sjá hann á fjölum Kaplakrika á komandi tímabili," sagði Ágúst Bjarni Garðarsson formaður handknattleiksdeildar FH við undirskriftina. Birkir verður fjórði leikmaðurinn sem gengur í raðir FH, áður hafði félagið fengið til sín Bjarka Jóhannsson frá Álaborg, línumanninn, Med Khalil Chaouachi sem kemur frá Túnis og Jón Þórarin Þorsteinsson frá Selfossi.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.