Sveinn Jóhannsson ((FRISO GENTSCH / dpa Picture-Alliance via AFP)
Sveinn Jóhannsson var kallaður inn í EM-hóp landsliðsins fyrir síðasta stórmót eftir að Arnar Freyr Arnarsson leikmaður Melsungen meiddist í æfingaleik fyrir mót. Sveinn var þá leikmaður Kolstad í Noregur en hann hefur nú fært sig yfir til Frakklands, nánar til tekið til Chambery. Handkastið sló á þráðinn og heyrði í Sveini sem var búinn að koma sér fyrir í Frakklandi og byrjaður að æfa með nýja félaginu sínu. Hann var staddur í æfingabúðum með liðinu þegar við heyrðum í honum. Sveinn var eitt ár hjá Kolstad í Noregi eftir að hafa leikið með Minden þar áður. ,,Ég er mjög ánægður með minn tíma í Kolstad. Christian Berge er frábær þjálfari og ég lærði mikið af honum. Svo er líka frábært að spila og æfa með gæða leikmönnum úr norska landsliðinu. Þeir tóku vel á móti manni og miðluðu sinni reynslu. Upplifunin að fá að spila í Champions league er ógleymanleg og dýrmæt reynsla sem ég tek með mér inn í næsta skref á ferlinum," sagði Sveinn um tímann sinn í Noregi en Kolstad stóðu uppi sem norskir meistarar eftir að hafa endað í 2.sæti í deildinni á eftir Elverum. Hann er spenntur fyrir næsta skrefi á ferlinum og telur sig vera að fara í töluvert sterkari deild en áður. ,,Ég vænti þess að franska úrvalsdeildin sé miklu sterkari en sú norska sem ég tel jákvætt. Það mun klárlega hafa þau áhrif að maður verði sjálfur betri. Einnig vænti ég þess af sjálfum mér að skila góðri spilamennsku fyrir liðið og gera allt í mínu valdi til þess að klúbburinn komist sem lengst." Chambery endaði um miðja deild í frönsku deildinni á síðustu leiktíð. Hann segir að stefnan sé sett á að ná betri árangri á næstu leiktíð. ,,Stefnan er sett hátt. Það verður erfitt að keppast við þrjú til fjögur stærstu lið Frakklands en ég myndi kalla það góðan árangur að enda í efstu fimm. Chambéry lenti í því að margir leikmenn meiddust í byrjun síðasta tímabils. Nú er staðan önnur og menn eru heilir núna og það er hugur í mönnum að enda í topp fimm. Ef maður kíkir á stöðutöfluna aftur í tímann sér maður að Chambéry hefur oft verið þar og því mjög raunhæft að stefna þangað aftur." ,,Ég geng inn í hlutverk þar sem ég er hugsaður sem leikmaður á báðum endum vallarins og ég vænti þess að spila mikið. Þjálfarinn er spænskur og hefur lagt miklu áherslu á að línumenn séu stór partur af sóknarleik liðsins," sagði Sveinn sem segir að standið á sér sé gott og líkaminn hafi verið í góðu standi síðustu tvö tímabil. ,,Ég hef verið að spila nokkuð mikið síðustu tvö tímabil og bara misst af tveimur leikjum vegna smávægilegra meiðsla sem ég tel nokkuð gott." Eftir að fara farið til Danmerkur frá Fjölni og þaðan til Þýskalands er Sveinn að fara spila í fjórða landinu sem atvinnumaður. Er hann að reyna að snerta á sem flestum deildum eða hvað? ,,Það er ekki endilega stefnan. Það hefur bara spilast þannig úr því hjá mér. Ég er mjög ánægður að vera núna með þriggja ára samning í góða félagi sem spilar í mjög sterkri deild," segir Sveinn sem segist stefna á að festa sig í sessi hjá íslenska landsliðinu en Sveinn er á 26. aldursári. ,,Ég hef alltaf sagt það að ég vilji vera landsliðsmaður, þannig að það er markmiðið," sagði línumaðurinn, Sveinn Jóhannsson í samtali við Handkastið.Ógleymanleg upplifun að spila í Meistaradeildinni
Markmiðið að vera í landsliðinu
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.