Viktor Gísli Hallgrímsson ((Kristinn Steinn Traustason)
Landsliðsmarkvörðurinn, Viktor Gísli Hallgrímsson er orðinn leikmaður Barcelona eftir eins árs dvöl í Póllandi hjá Wisla Plock þar sem hann varð pólskur meistari eftir sigur á Kielce í úrslitum. Dvöl Wisla Plock var þó einungis millilending frá Nantes til Barcelona. Þangað sem hann er nú kominn. Handkastið heyrði í Viktori Gísla sem var staddur í sumarfríi en æfingar hjá Barcelona hefjast ekki fyrr en í byrjun ágúst. Viktor var beðinn um að gera upp tímann sinn hjá Wisla Plock í Póllandi. ,,Sá tími var mjög góður. Ég var ósáttur í Frakklandi og fékk tækifærið að fara til Póllands í Meistaradeildina. Við unnum deildina sem var aðal markmiðið en liðið og ég vildum gera betur í seinni leiknum við Nantes í Meistaradeildinni," sagði Viktor Gísli þegar hann gerir upp tímabilið með Wisla en liðið féll úr leik í 12-liða úrslitum í Meistaradeildinni og hélt áfram: ,,En meiðslin hjá mér og öðrum leikmönnum í liðinu höfðu áhrif og voru vandamál á þeim tímapunkti." Nú hefst nýr kafli hjá landsliðsmarkverðinum og það hjá einu stærsta félagsliði í heimi, Barcelona. ,,Markmiðið er að halda áfram að bæta mig sem markmaður til að geta staðið mig vel á hæsta stigi með landsliðinu og upplifa drauminn minn sem var að spila fyrir Barcelona. Svo er markmiðið hjá félaginu að komast í Final 4 í Meistaradeildinni á hverju ári," sagði Viktor sem er spenntur að vinna með Emil Nielsen en Nielsen hefur stimplað sig sem einn besta markvörð heims í dag en hann gengur í raðir Veszprem eftir tímabilið. ,,Sá markmaður sem er að verja meira fær að spila. Ég fékk að vita það mjög skýrt hjá þjálfaranum að það væri hans philosophy. En markmaðurinn sem hefur verið lengur hefur alltaf smá forskot. Ég þarf bara að vinna vel og vera tilbúinn þegar kallið kemur." Eftir að hafa leikið í sterkri franskri deild og í Danmörku er Viktor nú að halda áfram í þessum svokölluðu "kósý" deildum. Okkur lá forvitni að vita hver munurinn sé á því að vera spila í jafnari deild og síðan að spila í deild þar sem þú ert í yfirburðar besta liðinu ásamt kannski einu liði? ,,Þetta er erfitt en kósý á sama tíma, skrítin blanda en þannig er besta lýsingin. Æfingarnar eru í raun erfiðari en margir leikirnir sem maður spilar. Við vorum líka þrír markmenn á seinasta ári þannig ég spilaði bara annanhvorn leik í pólsku deildinni. Það kom fyrir að maður spilaði ekki handboltaleik í yfir eina viku sem var spes." Þegar Barcelona tilkynntu að Viktor Gísli Hallgrímsson væri genginn í raðir félagsins mætti segja að þeir hafi verið að afhjúpa versta geymda leyndarmálinu í handboltaheiminum. Hvenær hófust fyrst viðræður hans við Barcelona og hvenær lauk þeim? ,,Hafði alltaf vitað af einhverskonar áhuga frá Barca þar sem það var einu sinni pæling að fara í unglinga akademíuna þeirra þegar ég var að spila mín fyrstu ár á Íslandi. En viðræður hófust aldrei fyrr en eftir tæpa þrjá mánuði í Póllandi," sagði Viktor Gísli að lokum í samtali við Handkastið.Sá sem ver meira spilar
Alltaf vitað af áhuga frá Barca
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.