Bergischer gat ekki staðið við loforð sín
(Oppenweiler)

Tjörvi Týr Gíslason ((Oppenweiler)

Tjörvi Týr Gíslason gekk í röðunum til nýliða Oppenweiler í þýsku B-deildinni en félagið er á leið inn í sitt fyrsta tímabil í þeirri deild. Tjörvi Týr lék í þýsku B-deildinni á síðustu leiktíð með Bergischer sem tryggðu sér sæti í þýsku úrvalsdeildinni síðasta vor.

Handkastið heyrði í Tjörva Tý á dögunum og spurði hann aðeins út veru sína hjá Bergischer og framhaldið hjá nýju liði.

Hefði viljað spila meira hjá Bergischer

,,Minn tími hjá Bergischer var mjög lærdómsríkur, innan sem utan vallar. Þó svo að ég hefði viljað spila meira var ég á báðum endum vallarins, sem gaf mér ágætis innsýn í það hvernig ég gæti bætt minn leik," sagði Tjörvi sem gerði eins árs samning við Bergischer síðasta sumar er hann gekk til liðs við félagið frá uppeldisfélagi sínu Val. Hann gerði ráð fyrir að vera áfram hjá Bergischer þangað til í maí.

,,Ég vissi að ég hefði skamman tíma til að sanna mig á síðustu leiktíð, sem ég taldi mig hafa gert þegar mér var boðinn nýr samningur í október í fyrra. Í maí er mér svo tilkynnt að þeir munu ekki geta staðið við sín loforð," sagði Tjörvi sem var því skyndilega orðinn atvinnulaus á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku. Þjálfari Bergischer er fyrrum landsliðsmaðurinn, Arnór Þór Gunnarsson.

Við tók langt sumar þar sem mikil óvissa ríkti yfir framhaldi Tjörva. Hann viðurkennir að hann hafi aldrei lokað á það að koma heim og ganga aftur í raðir Vals.

Aðstaðan óvenju góð

,,Heimkoma í Val var aldrei úr myndinni þar sem sumarið var mikil óvissa. Mörg félög komu og fóru en ekkert komst endanlega yfir línuna. Þegar HCOB (Oppenweiler) kom upp stökk ég á það, enda var júlí um það bil hálfnaður á þeim tímapunkti," sagði Tjörvi sem kláraði samning við félagið síðan í kjölfarið.

,,Mér líst vel á framhaldið með nýju liði. HCOB er ekki á sama stað og BHC varðandi fjármagn og allt utan um hald, en aðstaðan hér er óvenju góð og hér er allt til alls fyrir mig sem leikmann. Liðið er búið að sækja sjö nýja leikmenn fyrir komandi tímabil og því er mikil vinna framundan að slípa okkur saman. Ég er meðvitaður að þetta verður krefjandi verkefni," sagði Tjörvi sem segir væntingar liðsins hljóti að vera að reyna halda sér uppi.

,,Þetta félag er að leika í fyrsta sinn í B-deildinni og því nýliðar í deildinni. Við hljótum að setja stefnuna að halda sér uppi. Það er klárlega nýtt umhverfi fyrir mig og því spennandi vetur framundan," sagði Tjörvi sem hefur verið í toppliði Vals og Bergischer á ferlinum og því nýtt verkefni framundan fyrir hann að vera hluti af liði sem gæti verið í neðri hluta deildarinnar.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top