Hafa lagt mikla vinnu í að laga 6-0 vörnina
(HSÍ)

U19 karla ((HSÍ)

U19 ára karla landslið Ísland hefur leik á HM í Kairo í Egyptalandi þegar liðið mætir Gíneu á miðvikudagsmorgun.

Liðið hélt til Egyptalands í morgun og tekur síðan lokaundirbúning fyrir fyrsta leik á morgun. Heimir Ríkarðsson þjálfar liðið sem hefur náð góðum árangri á mótum undanfarin ár en liðið lék til að mynda um 3.sætið á EM í fyrra.

5-1 vörnin betri en 6-0

,,Undirbúningurinn hefur gengið vel, við ákváðum að leikmennirnir myndu einbeita sér að styrk í allan maí og þrjár vikur í júní. Við hófum síðan æfingar 20. júní þar sem European Open var síðan fyrstu vikuna í júlí," sagði Heimir Ríkarðsson í samtali við Handkastið rétt áður en hann ásamt þjálfarateymi sínu og leikmannahópnum hoppuðu upp í flugvél í morgun.

Á European Open lék liðið til úrslita en tapaði með einu marki gegn Spánverjum. Heimir var ánægður með margt á því móti en síðan voru ákveðnir hlutir sem liðið hefur unnið í núna sem þurfti að bæta.

,,6-0 vörnin var ekki að tikka eins og við vildum en aftur á móti skilaði júgga 5-1 vörnin okkar mjög góðu og við unnum marga bolta og 5-1 vörnin var í rauninni betri en 6-0 vörnin sem skilaði okkur mörgum hraðarupphlaupum," sagði Heimir sem segir liðið vera í góðum málum varnarlega ef þeir ná 6-0 vörninni í gang.

,,Við höfum lagt gríðarlega mikla vinnu í það síðustu vikur að laga 6-0 vörnina og held að það hafi tekist þokkalega. Við höfum tekið tvö æfingaleiki gegn Fram og FH í þessari viku og þar virkaði 6-0 vörnin vel."

Hann leggur mikla áherslu á að varnarleikurinn verði betri en á European Cup en hann hefur verið ánægður með markvörsluna í síðustu verkefnum.

,,Við höfum verið með flotta markmenn í síðustu verkefnum og við þurfum að hjálpa þeim með góðum varnarleik. Jens var til að mynda valinn besti markvörður á Sparkassen Cup og líka á European Open. Sigurjón hefur einnig staðið sig gríðarlega vel og ég hef litlar áhyggjur ef við náum 6-0 vörninni í gang."

Margir með meistaraflokks reynslu

Heimir segir að hópurinn stilli væntingum í hóf fyrir keppnina. Auk Gíneu er Ísland í riðli með Sádí-Arabíu og Brasilíu.

,,Það hefur gengið vel hjá þessum strákum á síðustu mótum. Þetta lið hefur tapað tvívegis í úrslitaleik á Sparkassen Cup í hörkuleikjum gegn Þjóðverjum og síðan gegn Spánverjum á European Open. Þeir spiluðu síðan um 3.sætið á EM í fyrra þar sem þeir töpuðu leiknum um bronsið á lokamínútunum. Þetta er gríðarlega flottur hópur sem getur náð langt."

,,Okkar markmið er að fara upp úr riðlinum með fullt hús stiga og þaðan er stefnan sett á að fara í 8-liða úrslit, það er alveg ljóst," sagði Heimir sem segir styrkleiki liðsins liggi í reynslu og góðri samstöðu innan hópsins.

,,Þetta er frábær hópur, flottir einstaklingar og mikil og góð samstaða. Þeir styðja hvorn annan og menn taka vel á því á æfingum og allt gert 100%. Það vantar ekkert upp á það. Okkar styrkleikar liggja í því að við erum með marga leikmenn með meistaraflokks reynslu sem ætti að geta skilað okkur. Sóknarleikurinn hefur gengið vel í öllum okkar verkefnum en svo að það skili einhverjum árangri þá þurfum við alvöru varnarleik."

,,Það var vörnin sem skilaði liðinu í leik um bronsið á EM í fyrra og ef við náum upp sama varnarleik á HM þá getur allt gerst," sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari U19 ára karla landsliðs Íslands að lokum í samtali við Handkastið.

Sjá einnig:
Leikmannahópur Íslands á mótinu

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top