Einar Þorsteinn Ólafsson ((Kristinn Steinn Traustason)
Landsliðsmaðurinn, Einar Þorsteinn Ólafsson hefur fært sig um set og er nú genginn í raðir Hamburg í þýsku úrvalsdeildinni eftir veru hjá Frederica í Danmörku síðustu þrjú tímabil þar undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Handkastið heyrði í Einari Þorsteini á dögunum og spurði hann út í veru sína í Danmörku og framtíðina hjá nýju félagi, Hamburg. ,,Það voru bylgjur í þessu. Þetta var orðið allt öðruvísi en þegar ég mætti fyrst þangað. Ég er hinsvegar þakklátur bara fyrir allt fólkið og liðsfélaga sem hjálpuðu mér í gegnum fyrstu árin mín í atvinnumennsku," sagði Einar Þorsteinn sem sagðist hafa tekið ákvörðun snemma á síðasta ári að þetta yrði hans síðasta ár með Frederica. Hann segir stjórnarmenn Frederica hafi sýnt því skilning og allt hafi endað á góðum nótum. Hann segir að þrátt fyrir að elska Ísland og eflaust allir íslenskir leikmenn væru til í að spila heima þá þarf að hugsa meira út í hvað er best fyrir ferilinn. Einhver orðrómur var uppi um að Einar Þorsteinn hafi verið í viðræðum við sitt uppeldisfélag Val en Einar blæs á þær sögusagnir. Hann viðurkennir að það voru fleiri félög sem sýndu honum áhuga áður en hann tók ákvörðun að velja Hamburg. ,,Það var alveg einhver áhugi frá öðrum félögum en þetta snýst ekki alveg um fjölda, meira “quality over quantity” og reyna að finna liðið sem passaði best fyrir mig núna," sagði Einar sem er spenntur fyrir nýju liði og að búa í Hamburg. ,,Það er alltaf erfitt að komast í nýtt umhverfi og venjast nýju vörninni og þeirra skipulagi en mér finnst þetta svo skemmtilegt núna. Ég þarf að sjá hversu mikið ég kemst upp með." ,,Hamburg er ótrúleg borg að búa í, sem er ekki sjálfsagt í handboltanum. Þeir eru líka með sögu og fólk sem elskar félagið og vilja koma honum á sama stað og hann var hér áður. Þannig allt í allt er vel farið með mann hérna." En hvert verður hlutverk hans með liðinu og hverjar eru hans væntingar? ,,Ég vill spila allan leikinn, allavega í vörninni og fá smá frelsi í seinni bylgju. Hvort að hlutverkið verði stærra en það, er er undir mér komið. Ég þarf að sýna þýsku úrvalsdeildinni að ég sé kominn til að vera." Einar Þorsteinn er eins og flestir ef ekki allir vita, sonur goðsagnarinnar, Ólafs Stefánssonar eins besta handboltamanns sögunnar. Nú er Einar kominn í mekka handboltans, Þýskaland. Finnur hann fyrir því að Þjóðverjinn viti hver pabbi sinn er og finnur hann fyrir aukinni athygli varðandi það? ,,Það þekkja örugglega fleiri pabba minn hér því þetta er svo mikil handboltaþjóð. En þeir sem þekkja hann vita ekki endilega að ég sé sonur hans. Ég hef sjaldan fengið mikla athygli eða væntingar útaf því að ég er sonur hans, þannig ég held áfram að skapa mínar eigin væntingar." Að lokum spurðum við Einar út í markmið Hamburgar í þýsku úrvalsdeildinni í vetur. ,,Fyrst og fremst að vera betri en í fyrra. Við erum með mögulega betri mannskap en fullt af nýjum leikmönnum sem þurfa að vera snöggir að aðlagast. Deildin er svo sterk að það gefst ekkert tími til að finna útúr hlutunum," sagði Einar Þorsteinn að lokum en Hamburg endaði í 10.sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í fyrra með 35 stig.Tíminn hjá Frederica breyttist
Fá smá frelsi í seinni bylgjunni
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.