Siggi Braga aðstoðar Erling
Sævar Jónsson

Sigurður Bragason (Sævar Jónsson

Sigurður Bragason hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs ÍBV og verður þar með Erlingi Richardssyni til halds og traust í vetur. Þetta tilkynnti ÍBV á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu.

Siggi Braga hefur þjálfað kvennalið ÍBV undanfarin ár en sagði skilið við liðið í sumar og tók Magnús Stefánsson við kvennaliði félagsins eftir að hafa stýrt karlaliðinu síðustu tvö tímabil.

Þjálfarakapalinn heldur því áfram í Eyjum því nú er það orðið staðfest að Sigurður verður aðstoðarþjálfari Erlings sem tók við liðinu á nýjan leik í sumar.

,,Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Sigurður Bragason hefur skrifað undir samning og kemur inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla. Sigurður er vel að sér í handboltaheiminum og kemur með dýrmæta reynslu inn í teymið. Hann á langan feril með liðinu sem leikmaður og í þjálfara stöðu, þekktur fyrir sitt vinnulag, metnað og ástríðu fyrir íþróttinni. Við hlökkum mikið til samstarfsins og erum sannfærð um að Sigurður muni styrkja teymið okkar vel í komandi átökum," segir í tilkynningunni frá ÍBV.

Þessi ráðning vekur athygli þar sem Kára Kristjáni Kristjánssyni var boðið að vera spilandi aðstoðarþjálfari liðsins fyrr í sumar en ekkert hefur orðið úr því eftir allt saman. Kári er enn samningslaus og alls óvíst hvort hann leiki með félaginu á komandi tímabili.

ÍBV endaði í 6. sæti Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð og tapaði í undanúrslitu um Powerade-bikarinn. Miklar breytingar hafa orðið á liði ÍBV frá síðustu leiktíð.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top