Oscar Lykke ((Afturelding Handbolti)
Eftir brotthvarf Birgis Steins Jónssonar til Savehof og Blæs Hinrikssonar til Leipzig í sumar var ljóst að Afturelding þurfti að styrkja raðirnar fyrir veturinn. Þeir tilkynntu á dögunum að þeir hefðu samið við dönsku skyttuna Oscar Lykke. Við heyrðum í Oscari á dögunum sem er kominn til landsins og byrjaður að æfa hvernig það hafi komið til að hann hafi ákveðið að koma til Íslands að spila handbolta. Oscar hefur aðeins kynnt sér deildina eftir að hann vissi að hann væri á leiðinni til landsins. „Ég veit að flest liðin eru staðsett í kringum Reykjavík og að deildin er mjög sterk miðað við hversu fámenn þjóð Ísland er.“ Oscar getur leyst allar stöður fyrir utan and segir þó að hans uppáhalds staða sé vinstri skytta. „Styrkleiki minn er að spila hraðan handbolta með mörgum sendingum. Ég hef gott auga fyrir leiknum og tel mig vera virkilega góðan skotmann.“ Væntingar Oscars fyrir tímabilinu er að fá meiri spiltíma og stærra hlutverk en hann hefur fengið í Danmörku undanfarin ár. „Mig langar til þess að nýta tímann á Íslandi til þess að þróa leik minn eins mikið og hægt er og spila meira en ég hef fengið að gera í Danmörku undanfarin ár.“
„Mig langaði að prófa nýjan handbolta kultúr og fannst Ísland vera frábært tækifæri til þess. Eftir samtöl við forsvarsmenn klúbbsins þurfti ekki að selja mér verkefnið frekar og ég ákvað að stökkva á þetta.“
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.