Geri ráð fyrir að vera í stóru hlutverki
(Baldur Þorgilsson)

Ísak Gústafsson ((Baldur Þorgilsson)

Selfyssingurinn, Ísak Gústafsson er farinn í atvinnumennsku eftir tvö tímabil á Hlíðarenda með Val. Ísak gekk í raðir danska úrvalsdeildarliðsins, TMS Ringsted fyrr í sumar og verður þar liðsfélagi Guðmundar Braga Ástþórssonar en þeir léku saman upp öll yngri landslið Íslands.

Ísak fluttist til Danmerkur í sumar og hefur komið sér vel fyrir á Sjálandi og er nú í fullum loka undirbúningi liðsins fyrir komandi tímabil.

,,Tíminn minn í Val var alveg æðislegur. Ég hef eignast marga góða vini í gegnum félagið," sagði Ísak sem viðurkennir að það sé fúlt að hafa ekki náð að landa Íslandsmeistaratitli með Val á þessum tveimur árum en hann náði þó að vinna bikarmeistaratitil og Evrópubikarmeistaratitil á þessum tveimur árum með Val.

,,Það er auðvitað svekkjandi að landa ekki Íslandsmeistartitlinum en það komu tveir góðir titlar í hús og það var gaman," sagði Ísak sem hefur stefnt að því að fara í atvinnumennsku lengi.

,,Ég hafði alltaf haft það í hausnum að fara út eftir tvö ár hjá Val. Það var markmiðið mitt og það gekk upp. Það voru nokkur félög erlendis sem höfðu samband en Ringsted heillaði mest."

,,Það sem heillaði mig hvað mest var að þetta var ungt lið og spennandi verkefni hja þeim og þjálfarinn hafði mikinn áhuga og trú á mér. Það er alltaf gott að vita til þess að þjálfarinn hafi mikla trú á sér."

,,Mitt hlutverk verður mikið geri ég ráð fyrir. Þeir óttu aðra hægri skyttu sem er líka mjög góð og samkeppnin verður mikil sem er líka bara gott. Fyrstu vikurnar hafa verið mjög góðar, við höfum æft mikið og vel," sagði Ísak sem segir það hafa verið virkilega jákvætt að fá Guðmund Braga til félagsins í sumar frá Bjerringbro-Silkeborg.

,,Það er frábært fyrir mig að fá Gumma og getað tala smá íslensku inná milli."

Hann segir markmið liðsins vera að ná sem bestum árangri í deildinni og komast í úrslitakeppnina.

,,Tilhlökkunin að spila í dönsku deildinni er mjög mikil. Hún hefur verið sögð þriðja besta deildin i heimi og það er gaman að fá að spila í henni," sagði Ísak að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top