Ingvar Heiðmann Birgisson (Heimasíða KA)
Það kom sennilega mörgum og jafnvel öllum á óvart þegar KA tilkynnti nýjan leikmann í herbúðum liðsins síðasta mánuði, er línumaðurinn Ingvar Heiðmann Birgisson uppalinn KA maður sneri til baka í handboltann eftir níu ára pásu. Ingvar Heiðmann lék síðast með liði ÍR í efstu deild tímabilið 2015/2016 en snýr nú til baka með uppeldisfélagi sínu í deild þeirra bestu. Ingvar Heiðmann var í löngu og ítarlegu viðtali við Handkastið fyrr í sumar. Nú er hinsvegar orðið ljóst að það verður ekkert að endurkomu Ingvars í Olís-deildina á komandi tímabili en Ingvar staðfesti í samtali við Handkastið í vikunni að hann sé með slitið krossband. Ingvar meiddist illa á æfingu með KA rétt eftir verslunarmannahelgi. Ingvar fór í myndatöku í síðustu viku og fékk í kjölfarið þau slæmu tíðindi að hann hafi slitið krossband. Hann stefnir á að fara í aðgerð á næstu dögum og í kjölfarið tekur við löng og ströng endurhæfing. Handkastið óskar Ingvari góðs bata og vonast til að sjá hann á vellinum síðar.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.