Stórleikur fer fram í kvöld. (Eyjólfur Garðarsson)
Fjórða umferðin í næst efstu deild karla hefst í kvöld með tveimur leikjum. Á Hlíðarenda mætast Valur 2 og Fjölnir klukkan 18:40 en klukkan 19:00 í Safamýri er stórleikur umferðarinnar þegar Víkingur og Grótt mætast. Víkingur og Grótta eru talin þau lið sem líklegust eru til að keppast um efsta sætið í deildinni og vinna sér þar með þátttökurétt í efstu deildinni á næstu leiktíð. Grótta og Fram 2 eru þau lið sem eru með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leikina en Víkingur er með fimm stig eftir jafntefli gegn Fjölni í 2.umferðinni. ,,Leikurinn leggst mjög vel í okkur og er mikil tilhlökkun að mæta í Safamýrina og spila gegn sterku Víkingsliði. Það eru allir klárir í slaginn og vel einbeittir fyrir þessu skemmtilega og spennandi verkefni. Hins vegar er smá spurningamerki hvort Hannes Grimm verði með okkur en hann og kærastan hans eiga von á sínu fyrsta barni," sagði Davíð Örn Hlöðversson þjálfari Gróttu í samtali við Handkastið. ,,Ég geri ráð fyrir skemmtilegum og spennandi leik allt til loka leiks. Bæði lið verða örugglega föst fyrir og tempóið hátt. Það má alveg gera ráð fyrir einhverju bitastæðu undir lokin." ,,Við erum fyrst og fremst að hugsa um frammistöðu liðsins, hvernig við viljum bæta okkur eftir síðasta leik og ná betri stöðugleika í okkar leik. Hver leikur skiptir gríðarlega miklu máli í deildinni enda höfum við verið að sjá óvænt úrslit í fyrstu leikjum deildarinnar," sagði Davíð Örn sem vill lítið gera úr mikilvægi leiksins en segir það vera ekkert launungarmál hvert markmið liðsins sé á tímabilinu. ,,Það hefur alltaf verið markmið Gróttu að vera í deild þeirra bestu," sagði Davíð Örn að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.