Ágúst Elí Björgvinsson (Álaborg)
Ágúst Elí Björgvinsson var utan hóps í liði Ribe Esbjerg sem heimsótti Álaborg heim í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Álaborg vann sjö marka sigur 36-29 þar sem markverðir Ribe Esbjerg vörðu samtals sex skot í leiknum. Ágúst Elí hefur ekkert verið í leikmannahópi Ribe Esbjerg eftir að hann kom aftur til baka eftir tveggja mánaða lánsdvöl hjá dönsku meisturunum í Álaborg. ,,Í gær kvöddum við Ágúst Björgvinsson og þökkuðum fyrir hans framlag. Honum tókst að leika sjö leiki með liðinu á tveimur mánuðum þar á meðal í Supe Cup og tveimur sigrum gegn Veszprém og GOG áður en hann sneri aftur til Ribe Esbjerg. Takk fyrir, Gústi,” segir í tilkynningunni hjá Álaborg á samfélagsmiðlum sínum. Ágúst Elí var valinn í landsliðshóp Íslands í síðustu viku sem lék tvo leiki gegn Þjóðverjum. Þar lék Ágúst Elí hálfan leik gegn Þjóðverjum sem tapaðist með ellefu mörkum. Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska landsliðsins sagði í viðtali fyrir verkefnið að hann væri búinn að gera Ágústi Elí það ljóst að það yrði erfitt fyrir Snorra að velja hann í lokahópinn fyrir EM í janúar ef hann er ekki að spila handbolta eins og raunin er þessa dagana hjá Ribe Esbjerg.
Þrátt fyrir að hafa ekki verið í leikmannahópi Ribe Esbjerg í gær var hann hinsvegar mættur í höllina og horfði á leikinn úr stúkunni. Fyrir leikinn var Ágústi Elí þakkað fyrir tímann sinn hjá Álaborg en hann kom til félagsins rétt fyrir mót vegna meiðsla Niklas Landin.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.