Simon Pytlick (Michael Hundt / dpa Picture-Alliance via AFP)
Þrátt fyrir að hafa gert samning við Flensburg til ársins 2030 fyrr á þessu ári er það orðið ljóst að danski landsliðsmaðurinn, Simon Pytlick gengur í raðir Fuchse Berlín sumarið 2027. Þar hittir hann fyrir Mathias Gidsel leikmann Fuchse Berlín og Nicolej Krickau þjálfara liðsins en þeir voru saman hjá GOG á sínum tíma. Bob Hanning, framkvæmdastjóri Fuchse Berlín var að vonum himinlifandi þegar tilkynningin var gefin út. ,,Það er frábært að leikmaður eins og Simon Pytlick hafi gengið til liðs við Füchse Berlin. Við teljum að í samvinnu við Mathias Gidsel, Matthes Langhoff, Tobias Grøndahl og Nils Lichtlein höfum við fundið rétta púsluspilið fyrir liðið.“ ,,Það er mikil tilhlökkun hjá mér að spila í Berlín frá og með 2027. Ég vona að ég geti orðið hluti af ótrúlega góðu og vel spiluðu liði, sem getur tekið frekari skref í rétta átt í framtíðinni,” sagði Pytlick sjálfur. Pytlick sem er fæddur árið 2000 og verður 25 ára 11. desember varð danskur meistari með GOG 2022 og 2023, með Flensburg varð hann Evrópudeildarmeistari 2024 og 2025 auk þess að hafa unnið til verðlauna með danska landsliðinu. Talið er að Fuchse Berlín hafi borgað 750.000 evrur til þess að kaupa upp samning leikmannsins hjá Flensburg en félagið hefur á dögunum einnig verið orðað við Dika Mem, frönsku stórstjörnuna í liði Barcelona.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.