Elias Ellefsen á Skipagötu (SVEN SIMON / AFP)
Færeyingurinn, Elias a Skipagötu var ekki í leikmannahópi þýska liðsins Kiel í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld er liðið mætti Magdeburg í toppslag deildarinnar. Skipagatan glímir við meiðsli á öxl sem hann hlaut í leik gegn Hannover- Burgdorf á dögunum. Magdeburg og Kiel gerðu jafntefli 26-26 í jöfnum og spennandi leik þar sem Hendrik Pekeler reyndist hetja Kiel og jafnaði metin í blálokin. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðslin Eliasar eru og hvort meiðslin muni hafa áhrif á þátttöku hans með færeyska landsliðinu á EM í janúar. Ef svo yrði, væri um að ræða hræðileg tíðindi fyrir færeyska liðið enda er leikmaðurinn algjör lykilmaður í sóknarleik liðsins. Færeyjar er í D-riðli Evrópumótsins og mæta þar Svartfjallalandi, Slóveníu og Sviss. Komist Færeyjar upp úr riðli sínum gætu þeir mætt íslenska landsliðinu í milliriðli mótsins. En að leiknum í kvöld þá var Harald Reinkind og Lukas Zerbe markahæstir með sjö mörk hvor. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Lukas Mertens voru markahæstir í liði Magdeburg með sex mörk hvor. Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk og Elvar Örn Jónsson skoraði eitt.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.