Andreas Palicka (Beate Oma Dahle / NTB / AFP)
Tveir markverðir eru orðaðir við komu til þýsku meistarana í Fuchse Berlín næsta sumar. Um er að ræða sænska markvörðinn Andreas Palicka og norska markvörðinn Torbjørn Bergerud leikmann Wisla Plock. Samkvæmt heimildum Handkastsins hefur Palicka gert stjórnarmönnum Kolstad það ljóst að hann leiki ekki með liðinu eftir tímabilið en félagið er í miklum fjárhagsvandræðum og var Palicka einn af lykilmönnum liðsins sem var beðinn um að taka á sig launalækkun á dögunum. Sama á um Sigvalda Björn Guðjónsson. Það verður því að teljast ansi líklegt að Palicka yfirgefi Kolstad næsta sumar og gangi í raðir Fuchse Berlín sem eru í leit af markverði eftir að ljóst var að serbneski markvörðurinn, Dejan Milosavljev gangi í raðir Kielce í Póllandi næsta sumar. Norski landsliðsmarkvörðurinn Torbjørn Bergerud hefur einnig verið orðaður við þýsku meistarana í Fuchse Berlín. Bergerud gekk í raðir Wisla Plock í Póllandi í sumar en hann var áður leikmaður Barcelona. Bergerud hefur verið orðaður við Berlínarliðið undanfarnar vikur en fréttirnar um Palicka eru nýjar á nálinni.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.