HSÍ (Víkingur)
Í síðustu viku undirrituðu fulltrúar Víkings og HSÍ samning sem felur í sér afnot HSÍ af íþróttamannvirkjum Víkings í Víkinni og Safamýri fyrir æfingar yngri og A-landsliða Íslands í handbolta. Samningurinn gildir til 1. september 2028 eða í tæplega þrjú ár. ,,HSÍ fær til afnota aðstöðu í íþróttasölum, styrktaraðstöðu, búningsklefum og fundarherbergjum í mannvirkjum Víkings í Safamýri og í Víkinni. Mun HSÍ, vegna fræðslustarfsemi á vegum Víkings, heimila yngri og eldri iðkendum Víkings ásamt þjálfurum félagsins að fylgjast náið með völdum æfingum yngri og eldri landsliða Íslands í Handbolta. Að auki mun HSÍ útvega hæfa fyrirlesara til að halda fyrirlestur fyrir handboltaþjálfara hjá Víkingi með reglulegu millibili," segir í tilkynningu sem Víkingur gaf út við tilefnið. Þar er einnig tekið fram að HSÍ skipuleggur vel á annað hundrað æfingar yngri og eldri landsliða og tengda viðburði í á hverju ári. Athygli vekur að íþróttastjóri HSÍ, Jón Gunnlaugur Viggósson er fyrrum starfsmaður Víkings og minnir þessi samningur á samning sem Arnar Þór Viðarsson fyrrum yfirmaðurknattspyrnumála hjá KSÍ og FH-ingur gerði við FH á sínum tíma fyrir hönd KSÍ. Sú ákvörðun Arnars Þórs var mjög svo umdeild innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.