Dejan Manaskov (Urbanandsport / NurPhoto via AFP)
Ótrúlegt atvik átti sér stað eftir leik Ohrid og Eurofarm Pelister í Biljanini Izvori höllinni, heimavelli Ohrid um síðustu helgi eftir að Ohrid hafi unnið fjögurra marka sigur 29-25 en þetta var einungis annað tap Eurofarm Pelister í deildinni heima fyrir en liðið tapaði gegn toppliði Vardar í upphafi tímabils. Ohrid sem er í 4.sæti deildarinnar hafði með sigrinum mikil áhrif á baráttuna um deildarmeistaratitilinn í Norður-Makedóníu því nú er Eurofarm Pelister fjórum stigum á eftir Vardar sem eru á toppi deildarinnar. Handknattleikssamband Norður-Makedóníu hefur þurft að fara þá leið að refsa báðum félögum með peningarsektum auk þess að dæma tvo aðila í leikbönn. Bæði félögin voru sektuð um 45.000 denara, sem jafngildir um rúmlega 100.000 íslenskum krónum, en aganefndin dæmdi Dejan Manaskov, einn besta handknattleiksmann Norður-Makedóníu og leikmann Eurofarm Pelister í þriggja mánaða keppnisbann. Sem þýðir að hann mun missa af restinni af fyrri hluta tímabilsins og fyrstu leikjunum eftir tvískiptingu deildarinnar. Eurofarm Pelister eru meistarar í heimalandinu þrjú síðustu ár eftir einokun Vardar sem höfðu unnið meistaratitilinn í Norður-Makedóníu í mörg ár í röð. Ástæðan fyrir leikbanni Manaskov er sú að eftir leik réðst hann á aðstoðarþjálfara Ohrid, Krste Andonovski sem bjóst við að fá handaband frá Manaskov eftir leikinn eins og gengur og geristn en annað kom á daginn. Krste sjálfur var dæmdur í þriggja leikja bann fyrir sinn hlut í máli. Atvikið var það alvarlegt að kalla þurfti lögreglu til og róa mannskapinn og Manaskov var kallaður til yfirheyrslu. „Eftir að atvikið hefur verið rannsakað ítarlega verður viðeigandi mál höfðað gegn árásarmanninum,“ staðfesti Stefan Dimoski, talsmaður lögreglunnar í Ohrid, við AIM.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.