Janus Daði Smárason (Julien Kammerer / DPPI via AFP)
Það kom mörgum á óvart í vikunni þegar Svíinn, Michael Apelgren þjálfari Pick Szeged í Ungverjalandi og sænska landsliðsins valdi lokahóp sinn fyrir EM í janúar. Þar var engan Tobias Thulin að sjá en Tobas Thulin er markvörður Pick Szeged. Apelgren tók því þá erfiðu ákvörðun að velja Thulin ekki einn af þremur markvörðum Svía fyrir Evrópumótið í janúar. Lokahóp Svíþjóðar fyrir EM má sjá hér. Janus Daði Smárason leikmaður Pick Szeged og íslenska landsliðsins var spurður út í þetta val Apelgren og hans fyrstu viðbrögð. ,,Þetta kom mér aðeins á óvart en á sama skapi hefur Svíþjóð átt 5-6 markmenn sem þeir geta valið á milli, sérstaklega varðandi markmann númer þrjú, þar ertu með nokkra möguleika. En þetta er heimurinn sem við lifum í og við sjáum það líka í okkar hóp. Þetta snýst um að reyna vera alltaf í topp formi og elta einhver smáatriði hér og þar og ef ekki þá er einhver annar sem gerir það,” sagði Janus Daði sem segir að þetta séu eflaust mikil vonbrigði fyrir liðsfélaga sinn, Thulin en á sama tíma gæti þetta verið spark í rassgatið. ,,Auðvitað getur þetta verið vonbrigði en á sama tíma finnst mér þetta líka var eitthvað sem getur drifið okkur áfram. VIð erum keppnismenn í okkar atvinnugeira og þetta heldur þér á tánum. Það verður gaman að sjá hvernig þeir verða í febrúar, hvort það verði einhver fíla eða hvort þeir séu ennþá bestu vinir,” sagði Janus Daði sem segir að ekki enn hafi þessi umræða komið upp hjá leikmannahópi Pick Szeged. ,,Er ekki betra að leyfa honum að melta þetta fyrstu vikuna í stað þess að fara grínast með þetta strax,” sagði Janus Daði sem efast ekki um að Apelgren hafi með þessu verið að velja það besta sem hann taldi fyrir sænska landsliðið. ,,Ég held að hinir hafi verið að verja meira og þú vilt hafa leikmenn í markinu hjá þér sem er að verja meira,” sagði Janus Daði að lokum.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.