Viggó Kristjánsson - HC Erlangen (Tom Weller / dpa Picture-Alliance via AFP)
Fjórir leikir fóru fram í 18.umferð þýsku úrvalsdeildarinnar í dag þar sem ótrúleg spenna var í öllum fjórum leikjunum. Tveimur leikjum lauk með jafntefli og einungis einu marki munaði í hinum tveimur leikjunum. Eins og fyrr var greint frá hér á Handkastinu þá fékk Ýmir Örn Gíslason rautt spjald í tapi Göppingen gegn Flensburg sem lauk með eins marks sigri Flensburg. Ýmir Örn fékk rautt spjald eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Viggó Kristjánsson átti stórleik í liði Erlangen sem gerði jafntefli gegn Melsungen á heimavelli 26-26. Erlangen var einu marki undir í hálfleik 15-16 en liðið var undir allan fyrri hálfleikinn. Erlangen komst yfir í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 24-23 en liðin skiptu stigunum á milli sín þegar upp var staðið. Viggó skoraði tíu mörk í leiknum og gaf fjórar stoðsendingar. Arnar Freyr Arnarsson skoraði fimm mörk úr fimm skotum af línunni fyrir Melsungen og Reynir Þór Stefánsson lék sinn fyrsta deildarleik með Melsungen og skoraði eitt mark úr fjórum skotum. Andri Már Rúnarsson var ekki í leikmannahópi Erlangen í kvöld. Arnór Þór Gunnarsson og lærisveinar hans í Bergsicher þurftu að sætta sig við eins marks tap gegn spútnik liði Lemgo í kvöld 27-28. Hollendingurinn í liði Lemgo, Niels Versteijnen skoraði sigurmark leiksins en hann fór á kostum og skoraði 11 mörk í leiknum. Í síðasta leik dagsins gerðu síðan Kiel og Hannover-Burgdorf jafntefli 29-29 en Hannover-Burgdorf leiddi í hálfleik 14-16 á útivelli. Kiel voru hinsvegar ávalt skrefi á undan í seinni hálfleik en August Baskar Pedersen jafnaði metin fyrir Hannover í blálok leiksins. Hann endaði sem markahæsti leikmaður leiksins með níu mörk. Færeyingurinn, Elias á Skipagötu var markahæstur í liði Kiel með sjö mörk ásamt Lukas Zerbe. Úrslit dagsins: Kiel - Hannover-Burgdorf 29-29
Göppingen - Flensburg 32-33
Erlangen - Melsungen 26-26
Bergischer - Lemgo 27-28

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.