Sigvaldi Björn Guðjónsson (Ruben De La Rosa / NurPhoto via AFP)
Staða Sigvalda Björns Guðjónssonar leikmanns Kolstad hjá félaginu er óljós. Þetta staðfesti hann í samtali við Handkastið nú rétt í þessu. Greint hefur verið frá fjárhagsvandræðum félagsins síðustu vikur þar sem lykilmenn félagsins voru beðnir um að taka á sig launalækkun, ekki í fyrsta skipti. Þar var Sigvaldi Björn Guðjónsson meðal annars en meðal annarra leikmanna sem nefndir hafa verið sem beðnir voru um að taka launalækkun eru Simen Lyse, Andreas Palicka og Simon Jeppsson. Handkastið greindi frá því fyrr í dag að Simen Lyse gangi í raðir PSG strax að Evrópumótinu loknu en hann hafði áður gert samning við franska félagið frá og með næsta sumri. Hen Livgot setti færslu á X-síðu sína að allir þessir fjórir leikmenn hafi ekki náð samkomulagi við Kolstad um launalækkun og væru þeim öllum frjálst að fara frá félaginu. Nú er ljóst að einn af þeim hefur nú þegar tekið ákvörðun um að fara strax en eftir standa hinir þrír. Á dögunum var greint frá því að Andreas Palicka myndi yfirgefa Kolstad næsta sumar og ganga í raðir Fuchse Berlín. Nú er spurning hvort hann gangi í raðir félagsins fyrr en áætlað var. Sigvaldi Björn Guðjónsson vildi lítið tjá sig um málið er Handkastið hafði samband við hann í morgun. ,,Ég get staðfest þau tíðindi að ég hef ekki náð samkomulagi við Kolstad í þessu máli. Sú vinna er í gangi og framhaldið er því óljóst. Ég get ekkert sagt til um það hvað gerist en vonandi skýrist þetta sem fyrst," sagði Sigvaldi í samtali við Handkastið. Tveir aðrir Íslendingar leika með Kolstad þeir Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigurjón Guðmundsson. Handkastið greindi frá því fyrir skemmstu að Benedikt Gunnar gæti verið á förum á frá félaginu næsta sumar eftir tveggja ára veru hjá félaginu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.