Morgan Marie Þorkelsdóttir ((Bára Dröfn Kristinsdóttir)
Morgan Marie Þorkelsdóttir leikmaður Vals lék ekkert með liðinu á síðasta tímabili vegna meiðsla sem hafa verið að plaga en hún fór í aðgerð á hné í október og var allt tímabilið að jafna sig. Samningur hennar við Val rann út á dögunum og er óljóst hvað verður í framhaldinu. Morgan gekkst undir aðra aðgerð nú á dögunum. ,,Ég var í aðgerð fyrir rúmlega þremur vikum síðan sem er gert ráð fyrir að taki mig þrjá mánuði að jafna mig af. Verið var að fjarlægja beinbita framan á hnénu sem tengist "Osgood-schlatter hnéi". Beinbitinn var að erta sinina framan á hnénu á mér. Ég fór í aðgerð í október á sininni því ég var með "jumpers knee" sem ég var búin að hjakkast á í tvö ár," sagði Morgan sem segist ætla einbeita sér að því að ná sér góðri áður en hún tekur ákvörðun með framhaldið. ,,Ég ætla bara að gera einn hlut í einu og spá í handboltanum þegar að því kemur. Það hafa nokkur lið heyrt í mér en ég tók þá ákvörðun eftir tímabilið að vinna í meiðslunum á mínum forsendum. Það kemur síðan í ljós hvað ég geri og hvað ég get gert þegar ég eyk álagið á hnénu. Það verður að koma í ljós hvort þessar aðgerðir hafi virkað," sagði Morgan í samtali við Handkastið. Eins og fyrr segir lék Morgan ekkert með Val á nýafstöðnu tímabili en hún hefur verið lykilmaður í sigursælu liði Vals síðustu ár.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.