Grétar Áki Andersen ((ÍR handbolti)
Grétar Áki Andersen hefur tekið við kvennaliði ÍR í Olís-deildinni en hann tekur við liðinu af Sólveigu Láru Kjærnested sem hefur stýrt ÍR-liðinu undanfarin þrjú tímabil. Grétar Áki var aðstoðarþjálfari Sólveigar á síðustu leiktíð. Grétar Áki segir það ekki hafa komið neitt annað til greina en að taka við liðinu, þegar honum hafi boðist það. ,,Það var eiginlega aldrei neitt annað svar í huganum en að taka við. Eftir að Solla ákvað að hætta fannst mér það bara rétt skref fyrir mig og fann strax fyrir miklum spenning fyrir verkefninu sem var framundan," sagði Grétar sem er spenntur fyrir verkefninu. ,,Þetta er ótrúlega spennandi verkefni. Við erum með gott lið sem langar að gera stóra hluti og vonandi geta tekið næsta skref. Stelpurnar eru búnar að taka skref fram á við seinustu tvö tímabil og vonandi getum við bætt ofan á það," sagði Grétar sem gerir ráð fyrir einhverjar áherslubreytingar fylgi nýjum þjálfara. ,,Við ætlum samt að halda okkur í grunngildin að vilja spila frábæra vörn og geta keyrt upp hraðann. Við ætlum að byggja aðeins ofan á vörnina bæta við nokkrum hlutum og síðan langar okkur að vera betri þegar við erum komin í sóknaruppstillingu. Okkur langar mest að reyna draga sem flesta á leiki og það verður gaman að koma í Skógarselið í vetur," sagði Grétar sem er spenntur að glíma við þau verkefni sem gætu beðið hans á sínu fyrsta ári sem meistaraflokksþjálfari. ,,Ég held að mesta áskorunin fyrir mig verði mest inn í tímabilið hvort sem við eigum frábæran leik eða slakan að geta leyst hvað það var sem gekk vel og illa og æfa og undirbúa það síðan eftir á." ÍR hefur fengið til sín tvo nýja leikmenn í sumar og gerir Grétar ekki ráð fyrir frekari styrkingu á leikmannamarkaðnum. ,,Við sóttum hana Sif í markið frá KA/Þór og Dagbjört kom aftur heim í ÍR. Síðan framlengdum við nokkra leikmenn. Síðan erum við að fá Sigrúnu Ásu aftur inn eftir krossbandameiðsli og það mun styrkja okkur þvílíkt." ÍR-liðið hefur hafið undirbúning sinn fyrir tímabilið. ,,Við byrjum að rúlla nokkrum æfingaleikjum beint eftir verslunarmannahelgina. Síðan verður farið í vafalaust frábæra æfingaferð til Tenerife með 10.000 fetum með karlaliði ÍR og Haukum kvenna. Eftir það erum við með þrjár vikur fyrir fyrsta leik. Við nýtum þær vikur sem best með að æfa vel og nokkrir leikir fyrir fyrsta deildarleik gegn Haukum," sagði Grétar Áki að lokum í samtali við Handkastið.Verður gaman að koma í Skógarselið
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.