Kári Kristján Kristjánsson ((Sævar Jónsson)
Hinn reynslu mikli línumaður ÍBV síðustu leiktíðir, Kári Kristján Kristjánsson er enn samningslaus ÍBV og enn alls óvíst hvort hann leiki með liðinu á næstu leiktíð. Handkastið fjallaði um málið fyrr í júlí þar sem Kári Kristján sagði til að mynda þetta: ,,Einhverju hluta vegna þá hófust samningaviðræðum um framhaldið hjá mér mjög seint og hafa dregist mjög mikið. Staðan er þannig að mér skilst að þetta liggi hjá aðalstjórn ÍBV. Ég skil það þannig að ég og handknattleiksdeildin höfum komist að samkomulagi en síðan er einhver villa í kerfinu." ,,Eins og ég segi, tímapunkturinn er ekkert sérstakur. Maður er eiginlega ekki með nein svör varðandi það hvað mun koma útúr þessu," sagði Kári sem verður 41 árs á árinu en hann tók jafnfram fram í samtali við Handkastið að hann vildi alls ekki ljúka ferlinum á þessum nótum en hann lék einungis einn leik með ÍBV eftir áramót vegna veikinda sem hann varð fyrir. Handkastið heyrði í Kára sem var allur að koma saman eftir viðburðarríka helgi í Vestmannaeyjum. ,,Ég hef ekki heyrt hvorki hóst né stunu frá einum né neinum frá því ég talaði við ykkur síðast. Ég hef ekkert heyrt í Erlingi þjálfara eða Þorláki framkvæmdastjóra í tæpa tvo mánuði né í formanni deildarinnar frá því í mars," sagði Kári en formaður handknattleiksdeildar er Garðar Benedikt Sigurjónsson. Það verður að segjast að þetta mál sé ansi áhugavert, að jafn reynslu mikill leikmaður eins og Kári, sem er uppalinn hjá félaginu fái þessa meðferð. En eins og Kári hefur greint frá stóðst honum samningur til boða sem hann hafði samþykkt munnlega en síðan hafi allt farið á ís. Aðspurður segist Kári ekki vera að æfa með liðinu sem er á leið til Hollands í æfingaferð á fimmtudaginn. Tæplegur mánuður er þangað til að Olís-deild karla fer af stað. ,,Ég hef ekki verið boðaður hvorki á æfingar né liðsfundi enda voru síðustu skilaboð mín við Erling þau að þeir æfa sem eru á samningi." Það sem vekur athygli er að til stóð að Kári Kristján yrði spilandi aðstoðarþjálfari hjá liðinu á komandi tímabili. Sigurður Bragason fyrrum þjálfari kvennaliðs ÍBV var hinsvegar kynntur sem aðstoðarþjálfari karlaliðsins í gærkvöldi og því nokkuð ljóst að Kári Kristján býðst ekki að vera spilandi aðstoðarþjálfari eins og gert var ráð fyrir á sínum tíma. En hvernig sér Kári þessi mál þróast? ,,Það getur allt gerst, en að sjálfsögðu þarf ég alltaf að heyra hvað ÍBV ætlar að gera,” sagði Kári í samtali við Handkastið. Samkvæmt heimildum Handkastsins bauðst Kára Kristjáni að taka við karlaliði Þórs í sumar en Handkastið hefur heimildir fyrir því að Kári hafi afþakkaði það boð þar sem hann sá fyrir sér að ljúka ferlinum með ÍBV. Handkastið mun halda áfram að fjalla um þetta mál á næstu dögum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.