U19 karla ((Ágúst Guðmundsson)
U19 ára landslið karla hóf HM í Egyptalandi af miklum krafti í morgun þegar þeir mættu Gíneu í fyrsta leik. Eftir að hafa verið ellefu mörkum yfir í hálfleik 19-8 unnu íslensku strákarnir sannfærandi 22ja marka sigur, 41-19. Heimir Ríkarðsson þjálfari liðsins var með blendnar tilfinningar eftir leikinn þrátt fyrir stórsigur og sagði það erfitt að meta þennan leik. ,,Ég var óánægður með það hvernig við mættum til leiks. Mér fannst við vera hægir sóknarlega og ákveðið andleysi yfir þessu," sagði Heimir í samtali við Handkastið beint frá Kaíró. ,,Ég hefði viljað sjá strákana betur fókuseraða þegar þeir mættu til leiks en við vorum með mun betra lið en Gínea og við lönduðum öruggum sigri. Ánægjulegasta við þennan leik er að við náðum að nýta breiddina í hópnum og allir fengu að spila og hrista úr sér mesta skrekkinn," sagði Heimir sem var töluvert ánægðari með seinni hálfleikinn í leiknum og að strákarnir hefðu klárað verkefnið fagmannlega. ,,Varnarlega fannst mér við aldrei ná fullkomlegum takti þar en á sama tíma er erfitt að spila móti Gíneu. Þeir eru óhefðbunbnir og spila öðruvísi handbolta en við erum vanir," sagði Heimir sem segir að skotnýtingin hefði mátt vera töluvetri betri í leiknum. Framundan er leikur gegn Sádí-Arabíu í fyrramálið og Heimir trúir ekki öðru en að liðið mæti betur til leiks í þann leik og þá leiki sem framundan eru. ,,Næsti leikur gegn Sádí-Arabíu og við þjálfarateymið erum núna að fara leggjast yfir þá og undirbúa okkur," sagði Heimir að lokum. Leikur Íslands gegn Sádí-Arabíu hefst klukkan 9:45 í fyrramálið. Brasilía og Sádí-Arabía gerðu 26-26 jafntefli fyrr í dag.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.