Ágúst Elí Björgvinsson ((Petr David Josek / POOL / AFP)
Markvörðurinn, Ágúst Elí Björgvinsson hefur verið lánaður til dönsku meistaranna í Álaborg frá danska félaginu, Ribe-Esbjerg. Þetta tilkynnti Álaborg á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu. Samkvæmt heimildum Handkastsins gerir Ágúst Elí tveggja mánaða lánssamning við Álaborg. Er hann nú þegar kominn til félagsins en hann ferðaðist með liðinu til Þýskalands í dag þar sem liðið mun leika á Heide Cup um helgina. Þar spilar liðið gegn Hannover-Burgdorf á morgun og leikur síðan tvo aðra leiki á sex liða móti en þátttakendur á mótinu ásamt Álaborg og Hannover-Burgdorf er, Kolstad, Hamburg, Gummersbach og Kadetten Schaffhausen. Niklas Landin markvörður Álaborgar glímir við meiðsli á hné og er á leið í aðgerð. Hann verður því frá keppni næstu vikurnar og á Ágúst Elí að leysa hann af. Ágúst Elí hefur verið hjá Ribe-Esbjerg frá árinu 2022 og skrifaði undir nýjan samning við félagið á síðasta ári. Hann myndar þriggja markavarðarteymi hjá liðinu en hann var orðaður frá liðinu fyrr á þessu ári sem ekkert varð úr.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.