Einar Rafn verður spilandi aðstoðarþjálfari KA
(KA)

Einar Rafn Eiðsson ((KA)

Einar Rafn Eiðsson skrifaði í dag undir nýjan samning við handknattleiksdeild KA og verður nú spilandi aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla og verður því Andra Snæ Stefánssyni þjálfara liðsins innan handar bæði innan sem utan vallar. Þetta tilkynnti KA á heimasíðunni nú rétt í þessu.

Einar Rafn sem er 35 ára gamall gekk í raðir KA fyrir tímabilið 2021-2022 og hefur heldur betur komið eins og stormsveipur inn í félagið.

Fyrr í sumar gekk Einar Rafn undir aðgerð á mjöðm og verður frá keppni næstu mánuði. Einar Rafn rann út af samningi fyrr í sumar og var því samningslaus

,,Ekki nóg með að hafa skilað sínu innan vallar að þá er Einar Rafn mikill félagsmaður og leggur mikinn metnað í umgjörð liðsins en hann var meðal annars einn af drifkröftunum í að taka búningsklefa liðsins í gegn og betrumbæta," segir í tilkynningunni frá KA.

,,Það er afar sterkt að fá Einar inn í þjálfarateymið og verður gaman að sjá hvernig hann og Andri Snær vinna saman með spennandi KA lið á komandi vetri. Lagt verður upp með að spila á gildum KA og ljóst að kjarni liðsins verður byggður upp á öflugum KA mönnum og má með sanni segja að Einar Rafn sé búinn að sanna sig sem grjótharðan félagsmann á undanförnum árum. Það verður því spennandi að sjá hann í enn stærra hlutverki í vetur," segir enn frekar í tilkynningunni frá KA.

KA endaði í 9. sæti Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð og komst því ekki í úrslitakeppnina.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top