Eitthvað sem maður hefur dreymt um
(Petr David Josek / POOL / AFP)

Ágúst Elí Björgvinsson ((Petr David Josek / POOL / AFP)

Eins og Handkastið greindi frá fyrr í dag þá hefur markvörðurinn, Ágúst Elí Björgvinsson verið lánaður frá Ribe-Esbjerg til dönsku meistaranna í Álaborg á tveggja mánaða lánssamningi.

Niklas Landin markvörður Álaborgar glímir við hnémeiðsli og er á leið í aðgerð. Ágúst Elí kemur því til liðsins til að fylla hans skarð á meðan Landin nær sér eftir aðgerðina.

,,Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig og ég er eiginlega enn að mátta mig á þessu," sagði Ágúst Elí í samtali við Handkastið en Ágúst Elí heyrði fyrst frá þessu í gærkvöldi og er nú mættur í rútu með Álaborgarliðinu á leið til Þýskalands þar sem liðið tekur þátt í sex liða æfingamóti um helgina, Heide Cup þar sem liðið leikur gegn Hannover-Burgdorf á föstudagskvöldið.

,,Álaborg þurfti markmann til að leysa Landin tímabundið af vegna meiðsla sem er auðvitað risastórt tækifæri fyrir mig. Að fá að æfa og spila með þessum gæjum, bæði í deildinni og í Meistaradeildinni, er eitthvað sem maður dreymir um," sagði Ágúst Elí.

Ágúst Elí hefur verið hjá Ribe Esbjerg frá árinu 2022 og myndar þar þriggja markvarðarteymi. Hann segir að Ribe hafi tekið vel í þetta.

,,Þeir voru opnir fyrir þessum möguleika þar sem ég fæ aukinn spiltíma með Álaborg og þá þarf þjálfarinn ekki að velja hver verður utan hóps í upphafi tímabils. Það er mikil samkeppni hjá Ribe milli þriggja markvarða þar sem yfirleitt eru bara tveir markmenn í hóp," sagði Ágúst sem segir mikla tilhlökkun fyrir komandi tímum með Álaborg.

,,Ég er ótrúlega spenntur og þakklátur og klár í að stíga inn á stóra sviðið," sagði Ágúst Elí að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top