Heimir Ríkarðsson ((HSÍ)
U19 ára landslið karla mætti Sádí Arabíu í öðrum leik riðlakeppninnar á HM í Egyptalandi sem fram fer þessa dagana. Íslensku strákarnir unnu sannfærandi 43-27 sigur og eru því komnir áfram í milliriðil þrátt fyrir að eiga einn leik eftir í riðlinum. ,,Ég er með ánægður með sigurinn og sáttur með það hvernig leikmennirnir mættu til leiks. Strákarnir voru virkilega einbeittir og flottir. Við náðum að spila á köflum frábæran varnarleik, sama hvort það var 6-0 eða 5-1," sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari liðsins eftir sigurinn. ,,Leikurinn vinnst á þessum kafla þegar við breytum stöðunni úr 7-5 í 15-5 og þar náum við að klára þetta." Allir leikmenn liðsins komu við sögu í leiknum nema Jens Sigurðarson sem var tæpur vegna magakveisu. ,,Ég er ánægður með að ná að rúlla liðinu og það komu allir við sögu nema Jens í markinu. Það voru þrír leikmenn sem fengu einhvernskonar magakveisu fyrir leikinn og voru tæpir fyrir þennan leik. Jens var verstur en er fínn núna. Andri Erlings og Hrafn voru þokkalegir og spiluðu í seinni hálfleik. Ég er sáttur með leikinn og breiddina í liðinu," sagði Heimir að lokum. Næsti leikur liðsins fer fram næstkomandi laugardag klukkan 12:00 þegar liðið mætir Brasilíu. Brasilía vann Gíneu fyrr í dag 35-28 og er því í 2.sæti riðilsins. Markatala gæti skipt sköpum fyrir Sádi Arabíu og Brasilíu í lokaumferðinni en liðin gerðu jafntefli í 1.umferð riðilsins.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.