Gísli Þorgeir Kristjánsson SC Magdeburg ((MARIUS BECKER / dpa Picture-Alliance via AFP)
Evrópumeistarinn og landsliðsmaðurinn, Gísli Þorgeir Kristjánsson var í viðtali á Instagram reikningi RÚV á dögunum þar sem hann fer yfir stöðuna á íslenska landsliðinu og þeirri staðreynd að einn af allra bestu leikmönnum í heimi, Aron Pálmarsson sé hættur og nú sé komið að öðrum að taka við keflinu. ,,Við vorum alls ekki langt frá þessu á síðasta móti (HM 2025). Ég er alveg sannfærður og mjög jákvæður fyrir hönd liðsins að þetta sé að koma," sagði Gísli Þorgeir aðspurður út í frammistöðu liðsins á síðasta stórmóti þar sem liðið komst ekki áfram uppúr milliriðli eftir stórt tap gegn Króatíu í milliriðlinum. Aron Pálmarsson líkt og Gísli Þorgeir er uppalinn í FH og hafa þeir farið svipaða leið í upphafi síns atvinnumannaferils þar sem báðir fóru þeir frá FH til Kiel ungir að árum. ,,Ég persónulega hef alltaf litið svakalega upp til hans. Síðan náttúrulega handboltalega vita allir hversu stórkostlegur hann er og það þarf eiginlega ekki að fara út í þá sálma en ég myndi segja að hann væri bara magnaður," sagði Gísli sem kallar eftir því að nú taki næsta kynslóð við keflinu. ,,Núna er bara tími til kominn að næsta kynslóð bara taki við. Við sem erum búnir að fá reynsluna síðustu stórmót og við erum búnir að vera ungir og efnilegir, það er búið að vera bíða eftir okkur. Nú er það svolítið bara undir okkur komið að taka við keflinu og koma með alvöru frammistöðu og sýna að við getum þetta," sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Magdeburg í viðtali við Instagram-reikning RÚV.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.