Sjö Ólympíumeistarar sem gætu spilað í Olís í vetur
(HSÍ)

U17 kk ((HSÍ)

Íslenska karla landslið skipað leikmönnum 17 ára og yngri gerði það gott í síðustu viku og vann til gullverðlauna á Ólympíuhátíð æskunnar með sigri á Þjóðverjum í úrslitaleik.

Í liðinu eru efnilegustu leikmann landsins fæddir árið 2008 og 2009. Þrátt fyrir ungan aldur hafa leikmenn í liðinu nú þegar hafið sinn meistaraflokksferil en nokkrir leikmenn innan hópsins voru í leikmannahópum sinna liða í Olís-deildinni á síðustu leiktíð og sumir hverjir léku hlutverk með sínu liði.

Þónokkrar breytingar hafa orðið á liðunum í Olís-deildinni fyrir komandi tímabil og nokkuð ljóst að töluvert af leikmönnum U17 ára landsliðsins verða í hlutverkum með sínum liðum á komandi tímabili.

Handkastið hefur tekið saman lista sjö leikmanna sem við teljum að verði í sviðsljósinu í Olís-deildinni á komandi tímabili og vert fyrir lesendur og hlustendur Handkastsins að leggja þessi nöfn á minnið strax í upphafi september þegar Olís-deildin hefst.

  • Gunnar Róbertsson - Valur
    Fékk smjörþefinn af meistaraflokks bolta á síðustu leiktíð hjá Val og byrjaði til að mynda inná í lokaleik tímabilsins þegar Valur tapaði gegn Fram í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Er allt í öllu í sóknarleik U17 ára landsliðsins og endaði sem langmarkahæsti leikmaður mótsins. Nú er faðir hans kominn í þjálfarateymi Vals svo það verður erfitt fyrir Ágúst Þór Jóhannsson að horfa framhjá hæfileikum Gunnars í vetur.
  • Freyr Aronsson - Haukar
    Var í frekar stóru hlutverki í liði Hauka á síðustu leiktíð þrátt fyrir að meiðsli hafi verið að plaga inn bæði á undirbúningstímabilinu og á meðan á mótinu stóð. Feykilega efnilegur leikmaður sem fékk dýrmæta reynslu hjá Ásgeiri Erni þjálfara Hauka á síðustu leiktíð. Gunnar Magnússon er nú tekinn við liði Hauka, hann er íhaldssamur og er þekktur fyrir að nota fáa útileikmenn. Það gæti haft áhrif á spilmínútur Freys í vetur.
  • Ómar Darri Sigurgeirsson - FH
    Glímdi við meiðsli á síðasta tímabili og hefði sennilega fengið fleiri tækifæri hjá FH í fyrra ef ekki hefði verið fyrir meiðsli. Nú hafa miklar mannabreytingar orðið á liði FH í sumar og margir lykilmenn horfið af braut. Ómar Darri er klárlega leikmaður sem Sigursteinn Arndal mun gefa tækifæri í vetur.
  • Sigmundur Gísli Unnarsson - ÍBV
    Var stórkostlegur á mótinu og myndaði gríðarsterkt markvarðarteymi með Antoni Mána Francisco Helderssyni leikmanni Vals. Sigmundur er fæddur árið 2009 og var því að ganga uppúr 4.flokki. Pavel Miskevich er horfinn af braut hjá ÍBV en Eyjamenn eru ríkir af efnilegum markvörðum. Ef Sigmundur heldur áfram að bæta sinn leik kæmi það ekki á óvart ef hann fengi tækifæri í Olís-deildinni í vetur. Hann lék níu leiki með HBH, venslafélagi ÍBV í Grill66-deildinni á síðustu leiktíð.
  • Patrekur Smári Arnarsson - ÍR
    Stór og stæðilegur línumaður sem leikur stjórnar miðblokkinni varnarlega. Hraustur og gefur ekkert eftir. Var með hlutverk í ÍR-liðinu á síðustu leiktíð og spilaði 17 leiki og skoraði sex mörk. Hans hlutverk verður bara stærra á komandi tímabili.
  • Kristófer Tómas Gíslason - Fram
    Líkt og Patrekur er um að ræða stóran og stæðilegan línumann sem leikur einnig í miðblokkinni varnarlega. Var ekki í stóru hlutverki á Ólympíuhátíðinni en framtíðin er Kristófers. Fékk aðeins að snerta á Olís-deildinni á síðustu leiktíð en Handkastið sér ekki annað í stöðunni en að tækifærunum fjölgi til muna hjá honum hjá Fram á næsta tímabili. Bæði vegna álags í Evrópudeildinni og þá hefur fækkað í leikmannahópi Fram frá síðustu leiktíð.
  • Ragnar Hilmarsson - Selfoss
    Eini útileikmaðurinn á listanum sem er fæddur árið 2009 og var því enn í 4.flokki á síðustu leiktíð. Lék engan leik með Selfossi í Grill66-deildinni á síðustu leiktíð en við sjáum fyrir okkur að Ragnar gæti fengið tækifæri í Olís-deildinni í ár ef hann heldur áfram að bæta sinn leik. Skoraði sextán mörk í úrslitahelginni í 4.flokki þar sem Selfoss lenti í 2.sæti. Leikmannahópur Selfyssinga hefur ekki breyst mikið og hefur liðið einungis misst leikmenn. Það er því kjörið tækifæri fyrir Ragnar að nýta sér það.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top