Nokkur atriði sem vöktu furðu okkar í dómgæslunni
HSÍ)

Heimir Ríkarðsson (HSÍ)

Íslenska karla landsliðið skipað leikmönnum 19 ára og yngri þurfti að sætta sig við eins marks tap gegn Serbiu í milliriðli HM sem fram fer í Egyptalandi. Lokatölur 29-28 Serbum í vil en íslenska landsliðið fékk tækifæri til að jafna metin í lokasókninni.

,,Við vorum grátlega nálægt því að kroppa í jafntefli eftir að slæman fyrri hálfleik. Hvorki vörn né markvarsla náði sér á strik fyrstu 30-40 mínúturnar. Síðustu 20 mínúturnar var vörnin góð og við náðum á þeim kafla að koma okkur aftur inn í leikinn," sagði Heimir Ríkarðsson í samtali við Handkastið.

,,Vörn og markvarsla var slök, markvarslan í seinni hálfleik varð síðan betri og Jens varði mjög vel undir lokin sem gaf okkur lífsvon," sagði Heimir en Jens varði dauðafæri af línunni þegar rúmlega 30 sekúndur voru eftir og Serbarnir hefðu getað komist tveimur mörkum yfir.

,,Sóknarlega vorum við búnir að leggja áherslu á að fjölga sendingum og koma á betra tempói heldur í hinum leikjunum en það gekk ekki nægilega vel. Við áttum of margar sóknir í dag sem voru of stuttar og ekki nægilega vel ígrundaðar," sagði Heimir en eins og fyrr segir fékk Ísland tækifæri til að jafna í lokasókninni en það mistókst.

,,Ég sá síðan ekki almennilega hvað gerðist í síðustu sókninni og það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Það voru nokkur atriði sem vöktu furðu okkar í dómgæslunni í dag," sagði Heimir en í lokasókn Íslands var Jens Bragi Bergþórsson línumaður dæmdur brotlegur þegar fimm sekúndur voru eftir af leiknum.

Þessi úrslit þýða því að Serbar eru núna með tvö stig eins og Ísland en með betri innbyrðis viðureign. Serbar eiga eftir að mæta Sádi Arabíu og verður því miður að teljast ansi líklegt að þeir sigri þá nokkuð auðveldlega.

Ísland mætir Spánverjum á morgun og verður að treysta á sigur þar og hagstæð úrslit annarstaðar til að eiga möguleika á að komast í 8 liða úrslit mótsins.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top