Vonbrigði að hafa ekki unnið neitt með Aftureldingu
(Raggi Óla)

Birgir Steinn Jónsson ((Raggi Óla)

Eftir tvö ár í Mosfellsbænum er vinstri skyttan sem hefur verið einn markahæsti leikmaður Olís-deildar karla undanfarin ár gengin í raðir sænska liðsins, Savehof í Gautaborg. Birgir Steinn flutti til Gautaborgar um miðjan júlí og er nú í fullum undirbúningi með nýju liði, í nýrri borg í nýju landi.

Birgir Steinn sem er uppalinn í Garðabæ hjá Stjörnunni hefur leikið með Stjörnunni, Fjölni, Gróttu og nú síðast með Aftureldingu og hefur ferill hans einkennst af hægrum en stöðugum tröppugangi sem hefur nú leitt hann út í atvinnumennskuna.

,,Ég hef verið mjög nálægt því að fara út síðustu tvö sumur. Mig langaði alltaf í eitthvað aðeins stærra en mér bauðst til þess að það væri þess virði að fara út. Sävehof sýndu mér síðan áhuga í kringum nóvember á síðasta ári og ég vissi þá að þetta væri eitthvað sem mér virkilega langaði að gera. Ég tek síðan ákvörðun um að stökkva á þetta bara í byrjun árs eftir nokkra fundi með þeim og skrifa undir hjá þeim stuttu eftir það. Það voru einhver 3-4 lið bæði í Svíþjóð og annars staðar í Evrópu sem höfðu áhuga á þessum tímapuntki en ekkert eins spennandi og Sävehof, þannig það fór aldrei út í neinar viðræður" sagði Birgir sem kveður Mosfellsbæinn eftir tvö ár þar.

,,Á heildina litið þá var tíminn minn hjá Aftureldingu mjög góður. Ég elskaði að spila þarna og átti frábæra tíma í Aftureldingu. Þetta voru virkilega góð tvö ár þar sem við vorum í baráttunni um alla titla sem í boði voru bæði árin. En auðvitað eru það gríðarlega mikil vonbrigði að hafa ekki unnið neitt á þessum tveimur árum enda vorum við með lið sem hefði átt að gera það bæði árin, að mínu mati."

Hann segir að árangur liðsins í Svíþjóð hafi fyrst og fremst heillað hann.

,,Þar sem þeir hafa verið við toppinn undanfarin ár og það að þeir spila í Evrópukeppninni. Síðan seinna meir heillaði það mikið hvað það er allt vel gert og flott í kringum félagið, höllin mjög flott, öll aðstaða upp á tíu og mikið af fólki að vinna í kringum félagið."

Birgir Steinn hefur verið í stóru hlutverki hjá sínum liðum að undanförnu, fyrst hjá Gróttu í þrjú ár og nú síðast hjá Aftureldingu. Hann gerir ekki ráð fyrir öðru en að vera áfram í stóru hlutverki og nú í sænsku úrvalsdeildinni.

,,Þeir eru auðvitað vel mannaðir í öllum stöðum og eru einnig með unga og uppalda stráka sem eru mjög góðir. En ég vonast eftir stóru hlutverki bæði í vörn og sókn, svipað og ég var með í mínum liðum á Íslandi, en það verður auðvitað bara að koma í ljós."

,,Fyrstu dagarnir hafa verið góðir og ég hef náð að koma mér vel fyrir. Síðan höfum við æft mjög stíft . Við fórum í fjögurra daga æfingaferð í lok júlí þar sem það var mikið æft. Við höldum áfram að æfa vel yfir næstu viku og síðan förum við að spila æfingaleiki í Danmörku og síðan byrjar bikarkeppnin.
Það tekur smá tíma að komast inn í tungumálið en það er töluð sænska á æfingum. En strákarnir og þjálfararnir eru duglegir að koma og útskýra fyrir mér og tveimur öðrum ef við skiljum ekki."

,,Við höfum verið að æfa mjög mikið fyrstu tvær vikurnar, við fórum í fjögurra daga æfingaferð þar sem það var æft þrisvar á dag. Síðan verður æft vel í næstu viku og eftir það förum við til Danmerkur að spila æfingaleiki við Skjern, Ribe-Esbjerg og HÖJ," sagði Birgir en bikarkeppnin í Svíþjóð er leikin áður en deildin hefst um miðjan september.

,,Það er allt einhvernveginn miklu stærra hér. Umgjörðin í kringum liðið og kringum æfingarnar og mikið af fólki í fullri vinnu hjá félaginu. Einnig er höllin mjög stór og flott með tveimur æfingasölum, lyftingaraðstöðu, sjúkraþjálfunaraðstöðu og veitingastað."

Hann segir að félagið vilji alltaf vera við toppinn í deildinni og stena á að vinna allt sem er í boði í Svíþjóð.

,,Það er bara stefna félagsins ásamt því að búa til leikmenn sem koma upp í aðalliðið. Sävehof vill alltaf vera besta liðið í Svíþjóð en á sama tíma hafa lið sem er um 70% uppaldir leikmenn, síðan 30% leikmenn sem eru aðkeyptir og styrkja liðið. En það er einnig markmið hjá okkur að, í fyrsta lagi, komast inn í Evrópukeppnina og síðan komast áfram í þeirri keppni," sagði Birgir en félagið mætir öðru sænsku liði, Malmö í forkeppni Evrópudeildarinnar í lok mánaðarins.

Hann er mjög spenntur fyrir því að prófa eitthvað nýtt og leika í deild erlendis.

,,Maður hefur verið að spila á Íslandi í sjö til átta ár og alltaf á móti sömu liðum og leikmönnum. Þannig það verður góð tilbreyting að bera sig saman við sænsku leikmennina og deildina hér," sagði Birgir Steinn Jónsson að lokum í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top