Nökkvi Snær Óðinsson (ÍBV Handbolti)
Vinstri hornamaður Eyjamanna, Nökkvi Snær Óðinsson hefur framlengt samning sinn við ÍBV. Þetta hefur Handkastið fengið staðfest úr innsta koppi Eyjamanna. Nökkvi Snær lék 22 leiki með ÍBV í deild og úrslitakeppni á síðustu leiktíð og skoraði 25 mörk. Óvissa ríkti um framtíð Nökkva í allt sumar en nú virðist það vera orðið klárt að Nökkvi mun leika með ÍBV í Olís-deildinni í vetur. Nökkvi sem er uppalinn í Vestmannaeyjum er á leið inn í sitt sjötta tímabil með ÍBV í Olís-deildinni. Fyrr í sumar fengu Eyjamenn Jakob Inga Stefánsson vinstri hornamann úr Gróttu en gera má ráð fyrir að þeir keppist um vinstri hornamannastöðuna í liði ÍBV í vetur. Nökkvi var í Hollandi um helgina þar sem ÍBV var í æfingaferð og lék tvo æfingaleiki gegn hollenskum liðum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.