Tómas Bragi Starrason ((Þorgils Garðar Gunnþórsson)
Það bendir allt til þess að Grótta bæti við sig tveimur nýjum leikmönnum á næstu dögum. Þetta staðfesti Davíð Örn Hlöðversson þjálfari liðsins í samtali við Handkastið. Tveir leikmenn hafa æft með liðinu síðustu daga og vikur og léku til að mynda með liðinu gegn Þór síðastliðinn sunnudag þegar liðin skildu jöfn 33-33 eftir að Grótta hafi verið 20-15 yfir í hálfleik. Um er að ræða þá Andra Snæ Sigmarsson og Tómas Braga Starrason en leikmennirnir hafa verið að æfa með Gróttu liðinu frá því að liðið hittist aftur eftir sumarfrí. Davíð Örn þjálfari Gróttu gerði ráð fyrir að leikmönnunum yrði boðinn samningur og myndu spila með Gróttu í Grill66-deildinni á næstu leiktíð. Andri Snær Sigmarsson er fæddur árið 2004, ungur og efnilegur markvörður frá Vestamannaeyjum. Tómas Bragi Starrason er línumaður fæddur árið 2002 og lék með Fjölni í Olís-deildinni á síðustu leiktíð. Hvorki Daði Laxdal, Vilhjálmur Geir Hauksson né Árni Benedikt Árnason léku með Gróttu í æfingaleiknum gegn Þór en þeir voru fyrr í sumar orðaðir við endurkomu á Nesið. Ekkert hefur þó heyrst af samningsmálum við þá við félagið. Grótta féll úr Olís-deildinni á síðustu leiktíð og hefur misst fjölmarga leikmenn en enn er beðið eftir því að félagið tilkynni inn nýja leikmenn sem eiga að leiða liðið í gegnum Grill66-deildina undir stjórn Davíðs Arnar Hlöðverssonar sem tók við liðinu af Róberti Gunnarssyni.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.