Daníel Þór ((MARIUS BECKER / dpa Picture-Alliance via AFP)
Daníel Þór Ingason sem gekk í raðir ÍBV frá Balingen fyrr í sumar er mættur til æfinga með ÍBV og er um þessar mundir í Hollandi ásamt liðsfélögum sínum. Handkastið hafði samband við Daníel og spurði hann út í tímann hans úti og hvernig komandi tímabil leggst í hann. ,,Ég er bara þokkalega sáttur með tímann minn úti. Ég spilaði í bestu deild í heimi sem var alltaf draumur, náðum 3ja sæti í Final 4 bikarkeppninni sem algjörir “underdogs”, kynnist fullt að fólki, sérstaklega í Þýskalandi, sem ég kalla bara vini mína í dag." Hefðir þú viljað vera áfram úti? ,,Bara svona bæði og, það er ekki auðvelt að vera bæði að spila handbolta með einn lítinn dreng þannig það hefði mikið þurft að ganga upp til þess að við myndum vera áfram úti." ,,Það var alveg einhver áhugi frá Skandinavíu en það var ekkert sem hentaði okkur fjölskyldunni eða heillaði okkur nógu mikið til þess að stökkva á það." Varstu í viðræðum við önnur félög hér heima? ,,Já, ég tók samtalið við nokkur lið á höfuðborgarsvæðinu áður en við völdum síðan að fara til Eyja." Afhverju velur þú að fara í ÍBV og hvernig lýst þér á komandi tímabil? ,,Það er ansi margt sem heillaði mig við ÍBV og Vestmannaeyjar, hef kynnst eyjunni nokkuð vel síðustu ár þar sem við eyddum alltaf part af sumarfríinu okkar hér. ÍBV er með frábæra æfingaaðstöðu, flottur klúbbur og með spennandi lið." Hvernig líst þér á komandi tímabil með ÍBV? ,,Ég er bara mjög spenntur! Að sjálfsögðu smá breytingar á hópnum og nýr þjálfari en við erum að æfa rosalega vel þessa dagana og strákarnir búnir að taka vel á móti manni þannig það er spennandi tímabil framundan!" Hvernig hafa fyrstu vikurnar verið með ÍBV? ,,Krefjandi en mjög skemmtilegar, búnir að æfa vel, allskonar fjáraflanir fyrir þjóðhátíð og svo er maður bara að kynnast strákunum." Sérðu fyrir þér að fara aftur út í atvinnumennsku?,,Það er í raun ekki planið en ef það kæmi eitthvað heillandi upp á borðið þá myndi maður klárlega skoða það." Kemur þú til baka í Olís-deildina sem betri leikmaður en þegar þú varst hér síðast? ,,Það á bara eftir að koma í ljós, kem allaveganna til baka reynslumeiri og tel mig ennþá hafa fullt uppá að bjóða." Daníel hefur verið á mála hjá HBW Balingen-Weilstetten undanfarin ár. Hann hefur áður leikið með Ribe-Esbjerg í atvinnumennsku en hérlendis hefur hann leikið með Haukum og Val.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.