Vilhelm Gauti (HK handbolti)
Fyrirliði Íslandsmeistaraliðs HK tímabilið 2011/2012 verður áfram aðstoðarþjálfari HK í Olís-deild karla á komandi tímabili. Verður hann þar með aðstoðarmaður Halldórs Jóhanns Sigfússonar. Þetta tilkynnti HK á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu. ,,Við erum í skýjunum að tilkynna að Vilhelm Gauti Bergsveinsson hefur framlengt samningnum við HK," segir í tilkynningunni en Vilhelm verður einnig áfram þjálfari HK 2 í Grill66-deild karla. ,,Villa þarf ekki kynningu fyrir HK-fólki – hann er einn af dáðustu sonum félagsins. Leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður, sjálfboðaliði – og allt þar á milli. Við elskum þegar HK-hjartað slær svona sterkt – og Villi er lifandi sönnun þess. Tökum á móti honum með risaknúsi í Kórnum," segir enn frekar í tilkynningunni. HK endaði í 8.sæti Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð en liðið mætir ÍBV í 1. umferð Olís-deildarinnar í 5. september.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.