Guðmundur Helgi Imsland (Egill Bjarni Friðjónsson)
KA hefur samið við nýjan markvörð fyrir komandi tímabil en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni nú rétt í þessu. Guðmundur Helgi Imsland hefur nefnilega skrifað undir samning hjá Handknattleiksdeild KA. Guðmundur kemur til KA frá Fjölni en hann er uppalinn í ÍR en lék einnig með Val í yngri flokkum. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir KA er hann kom inn á í 29-23 sigri KA á Þór í opnunarleik KG Sendibílamótsins í gær. ,,Það er afar jákvætt að fá Guðmund í okkar raðir en hann er að flytja norður vegna náms og klárt að það mun styrkja hópinn okkar að fá hann í markmannsteymið okkar," segir í tilkynningunni frá KA. Andri Snær Stefánsson þjálfari liðsins segir Guðmundur hafa staðið sig vel á æfingum og komið flott inn í hópinn sem sést vel á því að hann spilaði strax sínar fyrstu mínútur fyrir KA í gær. KA og Þór mætast svo aftur á sunnudaginn í KA-Heimilinu kl. 15:00.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.