Kári Kristján neitaði þjálfaratilboði í sumar
(Kristinn Steinn Traustason)

Kári Kristján Kristjánsson - Aron Pálmarsson ((Kristinn Steinn Traustason)

Kári Kristján Kristjánsson er samningslaus og án félags nú einungis tæpum þremur vikum fyrir fyrsta leik í Olís-deildinni. Þetta tilkynnti hann í einkaviðtali í nýjasta þætti Handkastsins þar sem hann fer ítarlega yfir tímalínu sumarsins þar sem hann var í samningsmálum við sitt uppeldisfélag ÍBV.

Honum var hinsvegar tilkynnt það í síðustu viku, 8.ágúst af Þorláki Sigurjónssyni framkvæmdastjóra handknattleiksdeildar ÍBV að hann fengi engan samning frá félaginu þrátt fyrir að málsaðilar hafi náð munnlegu samkomulagi um það fyrr í sumar.

Í viðtalinu segist Kári Kristján ekki hafa verið í neinum viðræðum við önnur félög í sumar en honum var þó boðið þjálfarastarf hjá Þór Akureyri í lok apríl. Á þeim tímapunkti benti ekkert til annars en að Kári yrði áfram í ÍBV og vildi Kári enda ferilinn hjá ÍBV sem spilandi aðstoðarþjálfari eins og stefnt var að.

,,Það var bara flottur pakki frá Þórsurum og ég átti mjög gott samtal við þá sem ég hreinlega afþakkaði," sagði Kári en Þórsarar réðu síðan Norðmanninn, Daniel Birkelund til sín um miðjan maí. Kári segist sjá eftir því í dag að hafa afþakkað þjálfarastöðu Þórs.

,,Að sjálfsögðu. Það gefur augaleið. Að sjálfsögðu hefði ég tekið við liðinu miðað við hvernig staðan er í dag hjá mér. Auðvitað hefði ég þá farið norður. Þetta var spennandi verkefni og fyrir mig sjálfan var það spennandi að vera aðalþjálfari í fyrsta skipti í efstu deild. Þú þekkir þetta sjálfur," sagði Kári sem beindi orðum sínum til Arnars Daða Arnarssonar eins þáttastjórnanda Handkastsins sem þjálfaði lið Gróttu í efstu deild á sínum tíma.

Viðtalið er hægt að hlusta á hér.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top