Aron Pálmarsson FH (Sævar Jónsson)
Handkastið hefur verið leiðandi í umfjöllun um íslenskan handbolta síðustu ár og nú fer að styttast í að tímabilið hér heima fari af stað. Handkastið heldur úti tveimur hlaðvarpsþáttum í viku þegar tímabilið er í gangi auk þess að fjalla vel og ítarlega um allt sem tengist íslenska boltanum hér á vefnum. Olís-deild karla hefst miðvikudaginn 3.september en þangað til ætlar Handkastið að hita upp fyrir deildina og fjalla um öll liðin í deildinni. Í dag er 18 dagar þangað til Olís-deild karla hefst og því löngu orðið tímabært að kynna sér liðin í deildinni. Í dag förum við yfir lið FH. Það gekk mikið á í herbúðum FH í fyrra. Aron Pálmarson yfirgaf liðið á miðju tímabili og gekk í raðir Veszprem eftir virkilega erfiða byrjun í Evrópudeildinni. FH-ingar þéttu raðirnar eftir brotthvarf Arons og sigla deildarmeistaratitlinum heim. Vonbrigði í bikarkeppninni enn eitt árið og detta út gegn Íslandsmeisturum Fram á dramatískan hátt. Þrátt fyrir deildarmeistaratitil má gera ráð fyrir því að FH-ingar hafi verið frekar svekktir með tímabilið í heild sinni. Þjálfarinn: Breytingar: Fylgist með:
Sigursteinn Arndal hefur þjálfað liðið undanfarin ár og landaði þeim stóra tímabilið 2023/24. Miklar breytingar á liðinu núna og Steini að fara að byggja upp nýtt lið hjá FH en mikið af spennandi efnivið.
Miklar breytingar á FH fyrir tímabilið í ár. Þeirra besti og reynslumesti leikmaður undanfarin ár, Ásbjörn Friðriksson hefur lagt skóna á hilluna og þar eru FH að missa mikinn leiðtoga úr hópnum. Talandi um leiðtoga missi þá lagði Ólafur Gústafsson einnig skóna á hilluna. Jóhannes Berg Andrason hélt út í atvinnumennsku. FH-ingar sóttu Bjarka Jóhannsson frá Danmörku og Birkir Benediktsson gekk í raðir liðsins frá Japan. Ágúst Birgisson hætti við að hætta við og tekur slaginn með liðinu í vetur.
Lykilmenn:
Jón Bjarni Ólafsson, Daníel Freyr Andrésson, Garðar Ingi Sindrason
Bjarki Jóhannsson unglingalandsliðs leikmaður sem ólst upp í KA. Hefur spilað í Danmörku undanfarin ár og var t.d. í hóp hjá stórliði Álaborgar. Verður spennandi að fylgjast með hvernig hann mun koma inn í Olísdeildin í ár.
Framtíðin:
Brynjar Narfi Arndal einn efnilegasti leikmaður landsins og sonur þjálfarans. Brynjar var yngsti leikmaður í sögu deildarinnar í fyrra þegar hann kom inná í leik gegn Fjölni. Hann hefur verið duglegur að styrkja sig í sumar og mun án efa fá stærra hlutverk í töluvert breyttu FH liði í vetur.
Við hverju má búast:
FH-ingar mega vera spenntir fyrir framtíðinni. Það er mikill efniviður í félaginu og dugar að nefna Garðar Sindrason, Brynjar Narfa og Ómar Darra Sigurgeirsson. Það hefur þó gífurleg reynsla farið úr liðinu þannig þá má alveg reikna með vaxtarverkjum í Kaplakrika í vetur meðan þessir ungu leikmenn hlaupa af sér hornin. FH vinnur sennilega enga titla í ár en FH-ingar ættu ekki að vera í vandræðum með að flykkjast bakvið þennan efnilega hóp og sjá þá verða af framtíðar atvinnumönnum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.