Skarphéðinn Ívar Einarsson (Sævar Jónasson)
Skarphéðinn Ívar Einarsson leikmaður Hauka lék lítið í níu marka tapi liðsins gegn Aftureldingu í gær eftir að hafa fengið þungt högg á andlitið í upphafi leiks. Skarphéðinn hafði skorað eitt mark áður en hann fékk höggið og kom ekkert meira við sögu í leiknum. Skarphéðinn gekkst undir læknisskoðun í dag þar sem alvarleiki meiðslanna var skoðaður en óttast var að Skarphéðinn hafi nefbrotnað. ,,Ég tók ekki almennilega eftir því hvað gerðist, en hann sat allavegana á bekknum með klakapoka í andlitinu,” sagði Benedikt Grétarsson í nýjasta þætti Handkastsins en hann lýsti leiknum í Sjónvarpi Símans en Afturelding vann leikinn 31-22. Gunnar Valur Arason var einnig gestur í þættinum og sá atvikið í sjónvarpinu. ,,Ævar Smári fer í fintuna sína til baka og hoppar upp og virðist gefa Skarphéðni óvart olnbogaskot í andlitið,” sagði Gunnar Valur. Gunnar Magnússon þjálfari Hauka sagði í stuttu samtali við Handkastið í morgun að þar á bæ væru menn að bíða eftir staðfestingu á alvarleika meiðsla Skarphéðins. Það gæti verið útlit fyrir það að Skarphéðinn missi af næsta leik Hauka í Olís-deildinni sem er gegn hans uppeldisfélagi KA í alvöru toppbaráttuslag en Haukar og KA mætast í 13.umferðinni á miðvikudagskvöldið næstkomandi klukkan 20:15.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.