Einar Birgir Stefánsson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Haukar og KA mættust í 13.umferð Olís-deildar karla í gærkvöldi í toppslag en einungis tveimur stigum munaði á liðunum fyrir leikinn. Haukar á toppi deildarinnar en KA í 4.sæti deildarinnar tveimur stigum á eftir Haukum. Eftir að KA hafi verið tveimur mörkum yfir í hálfleik 19-17 þá reyndust Haukar sterkari aðilinn í seinni hálfleik og unnu að lokum fjögurra marka sigur 42-38 í markaleik. Athygli vakti að í lið Hauka vantaði bæði Skarphéðinn Ívar Einarsson og Brynjólf Snæ Brynjólfsson. Skarphéðinn Ívar nefbrotnaði í tapi Hauka gegn Aftureldingu í síðustu umferð og var á varamannabekk Hauka sem starfsmaður en Brynjólfur var hvergi sjáanlegur. Brynjólfur sagði í samtali við Handkastið að hann hafi verið veikur og því óleikfær. Sömu sögu er að segja af þeim Daníeli Matthíassyni og Einari Birgi Stefánssyni leikmönnum KA sem voru ekki með liðinu í gær. Andri Snær Stefánsson þjálfari KA sagði í samtali við Handkastið að þeir væru báðir fárveikir heima og ekki leikfærir. KA voru einungis með 14 leikmenn á skýrslu í leiknum í gær og spiluðu á fáum leikmönnum sökum veikinda lykilmannanna tveggja.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.