Mikkel Hansen for handball in the USA (HENNING BAGGER / Ritzau Scanpix via AFP)
Fyrrverandi handboltastjarnan Mikkel Hansen hefur rakað af sér eitt þekktasta hár handboltasögunnar, til að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini. Mikkel Hansen sem var þrívegis kjörinn besti handboltamaður heims og vann til fjölda verðlauna á sínum ferli, þar á meðal tvo Ólympíumeistaratitla, þrjá heimsmeistaratitla og Evrópumeistaratitil með danska landsliðinu þekkir margt fólk sem greinst hefur með krabbamein. Pabbi hans er þar á meðal. ,,Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að styðja málstað sem hefur áhrif á svo marga. Krabbamein hefur ekki aðeins áhrif á sjúklinginn, heldur einnig fjölskyldu hans og vini," sagði Mikkel Hansen í tilefni þess að birt var myndskeið af honum raka af sér hárið í þágu góðs málefnis. Pabbi hans greindist með krabbamein í annað sinn árið 2022, skömmu eftir að Hansen hafði sjálfur fengið blóðtappa í lungu. ,,Faðir minn fékk sjálfur krabbamein og en sem betur fer hefur hann sigrast á þeim veikindum. Að klippa hárið af mér er mín leið til að sýna samstöðu með öllum sem berjast," segir Hansen. Kræftens Bekæmpelse, sem líkja má við Krabbameinsfélagið á Íslandi styður krabbameinsrannsóknir, forvarnir og umönnun sjúklinga í Danmörku. Kræftens Bekæmpelse stendur fyrir þriggja vikna átaki á hverju ári sem nær hápunkti með beinni sjónvarpsútsendingu 25. október í Danmörku. „Fyrir Kai, fyrir mömmu Silas og Sannavahs, fyrir Rigmor og Paul, fyrir kennarann í 3. B, fyrir Navid, fyrir Jakob, fyrir Kathrine og fyrir pabba minn,“ segir Hansen í myndbandinu hér að neðan, sem sýnir þegar hann rakaði hárið af. Hinn fyrrum, hárprúði Mikkel Hansen tekur sig vel með krúnurakaðan haus en hann lék allan sinn feril með langt og mikið hár bundið niður með hárbandi um höfuðið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.