Guillaume Gille (Bo Amstrup /AFP)
Spánverjar náðu í sín fyrstu stig í milliriðli Evrópumótsins með sannfærandi sigri 36-32 gegn Frakklandi í Herning í Danmörku í dag. Það voru ekki margir sem spáðu Spánverjum sigri í leiknum eftir þrjú töp í röð gegn Þjóðverjum, Noregi og Danmörku. Guillaume Gille þjálfari Frakka var ekki skemmt eftir tapið gegn Spánverjum en Frakkar unnu Portúgali með átta mörkum í síðustu umferð, 46-38 og gerðu vonir Portúgala um sæti í undanúrslitum að nánast engu. ,,Þetta eru mikil vonbrigði og við erum pirraðir í augnablikinu. Við vöruðum leikmennina við fyrir leikinn að þetta gæti orðið erfiður leikur. Spánverjar hafa ekkert að tapa og myndu spila pressulausir og jafnvel prófa eitthvað nýtt. Og það er nákvæmlega það sem þeir gerðu. Mér finnst eins og við, þjálfarateymið, höfðum ekki getað haldið leikmönnunum nógu vakandi og að leikmennirnir, hver fyrir sig, voru ekki tilbúnir í þessa baráttu.“ ,,Það gekk ekkert upp hjá okkur. Aggresív vörn þeirra setti okkur í vandræði og svo skoruðum við ekki þegar við loks fengum færi og við stöðvuðum þá ekki heldur varnarlega. Seinni leikurinn var miklu betri, miklu meiri ákefð og árásargirni og við komum til baka. Því miður dugði það ekki til en við fengum tækifæri til að fá eitthvað útúr þessum leik,” sagði Guille en Frakkar minnkuðu muninn mest niður í eitt mark í seinni hálfleik í stöðunni 26-25 en þá komu þrjú spænsk mörk í röð. Framundan er úrslitaleikur Frakka gegn Þjóðverjum í lokaumferðinni. Frakkar eru með fjögur stig, tveimur stigum á eftir Þjóðverjum sem eru með sex stig. Fari svo að Danmörk tapi lokaleik sínum í riðlinum gegn Noregi og Frakkar vinna Þjóðverji þá endar Þýskaland, Frakkland og Danmörk öll með sex stig í milliriðlinum. Frakkland og Danmörk myndu þá fara áfram í undanúrslit með betri innbyrðis stöðu þessara þriggja liða.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.