Dika Mem - Barcelona (Ronny HARTMANN / AFP)
Franska stórstjarnan, Dika Mem hefur verið orðaður við þýsku meistarana í Fuchse Berlín síðustu daga og vikur en nú eru komnar nýjar vendingar í málið. Dika Mem rennur út af samningi við Barcelona sumarið 2027 og hefur verið mikil umræða um það hvað taki við þegar sá samningur rennur út. Danski vefmiðillinn, handballtransfer.dk fullyrðir nú að Dika Mem hafi áhuga á að fara heim til Frakklands og ganga í raðir Paris Saint-Germain sumarið 2027. Í margar vikur hafa verið vangaveltur uppi um að Füchse Berlin væri að setja saman sannkallað draumalið frá og með sumrinu 2027. Síðasta púslið átti að vera franska stjarnan Dika Mem. Sögusagnirnar urðu enn háværari þegar kom í ljós að Dika Mem hafði heimsótt æfingaaðstöðu Füchse Berlin í september síðastliðinn. Handballtransfer.dk segist hafa heimildir fyrir því að leið Dika Mem liggi ekki í þýsku úrvalsdeildina heldur heim til Frakklands og til höfuðborgarinnar í París. Ef þessi orðrómur reynist sannur væri það mikið áfall fyrir Füchse Berlin. Stjórnandi þeirra, Bob Hanning, hefur áður sagt að það væri „frábært“ að leikmenn af gæðum Mem hefðu áhuga á að spila með félaginu. Samningur Mem, sem hefur unnið þrjá Meistaradeildartitla með Barcelona, rennur út sumarið 2027. Koma hans til PSG mun festa franska félagið í sessi sem stórveldi og einnig binda enda á drauma um mögulega útilínu Füchse Berlín sem hefði getað samanstaðið af Dika Mem, Mathias Gidsel og Simon Pytlick. Handkastið fylgist vel með framvindu mála en það er nokkuð ljóst að mál Dika Mem verða milli tannana á fólki næstu vikur og mánuði.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.