Emil Madsen (CHRISTIAN CHARISIUS / dpa Picture-Alliance via AFP)
Danska hægri skyttan í liði Kiel, Emil Madsen hefur gengist undir hnéaðgerð og verður frá keppni það sem eftir er tímabilsins. Um er að ræða mikið áfall fyrir þýska liðið sem verða í baráttunni bæði í þýsku deildinni og Evrópudeildinni eftir áramót. Samkvæmt staðarblaðinu, Kieler Nachrichten gekkst hinn 24 ára gamli leikmaðurinn undir aðgerð í Kaupmannahöfn og þótt aðgerðin hafi gengið samkvæmt áætlun er ljóst að tímabilinu er lokið fyrir Danann. Liðslæknir THW Kiel, Philip Lübke, segir að nú sé áherslan lögð á næsta tímabil. „Við erum mjög bjartsýn en gerum ráð fyrir að Emil geti ekki hjálpað okkur aftur fyrr en á næsta tímabili,“ segir Lübke. Emil Madsen meiddist þegar á hægra hné á undirbúningstímabilinu í sumar en þrátt fyrir þau meiðsli tókst honum að spila sex leiki í Bundesligunni og skora 31 mark. Hann hefur hinsvegar ekkert leikið með liðinu vegna meiðslanna síðustu vikur. Fyrst um sinn var vonin á að hann gæti snúið aftur um áramótin en svo reyndist ekki vera og hann þurfti að gangast undir aðgerð. Philip Jicha þjálfari Kiel efast ekki um þann missi sem þetta er fyrir liðið þar sem Emil Madsen hjálpaði þeim mikið á síðustu leiktíð. Samkvæmt Kieler Nachrichten fylgist THW Kiel nú með markaðnum fyrir mögulegum liðsstyrkingum eftir að ljóst varð að Emil Madsen yrði ekki meira með á tímabilinu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.