Elliði Snær tekinn föstum tökum (Sævar Jónasson)
,,Ég horfi á hlutverk mitt í landsliðinu svipað og undanfarin ár," sagði línumaðurinn Elliði Snær Viðarsson leikmaður Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni í viðtali við Handkastið í síðustu viku. Gert er ráð fyrir því að Elliði fái nýtt hlutverk varnarlega hjá íslenska landsliðinu á komandi Evrópumóti og spili bakvörðinn meira en áður. Elliði segist ánægður með hvað sem er, svo lengi sem hann fær að spila. ,,Ég hef verið að spila í bakverðinum hjá Gummersbach, bæði þar og hafsent. Ég er bara ánægður ef ég fæ að vera inn á vellinum. Ég get líka alveg tekið hornið á mig ef það vantar. Ég er mjög ánægður að fá það hlutverk að vera í bakverðinum en ef það vantar einhvern í hafsentinn þá er ég klár þar líka. Ég tek því sem ég fæ frá Snorra." Elliði hefur verið þekktur sem stemningsleikmaður og hefur hrifið íslensku áhorfendurna á síðustu stórmótum með jákvæðni, gleði og orku. Verður ekki sama upp á teningnum í ár? ,,Við þurfum á henni að halda og við þurfum líka á íslenskum klókindum að halda. Það er samblanda af þessu báðu og ef við finnum þessa fullkomnu blöndu þá getum við náð langt," sagði Elliði að lokum í viðtali við Handkastið.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.